Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Veganjól

Ef halda á veganjól þar sem fara á alla leið, þá má finna hérna lista yfir allar þær vörur sem eru merktar vegan á vörulista vefbúðar Vínbúðanna. Á uppskriftarsíðunni okkar má síðan finna nokkrar skemmtilegar uppskriftir af vegan réttum af vinbudin.is. 

 

Rauðrófucarpaccio 
Þeir sem eru vegan og bera fram rauðrófu carpaccio geta valið sér vín úr Pinot Noir þrúgunni. Rósavín gæti líka gengið með eða freyðivín.  

 

Hnetusteik  
Hnetusteikin er kannski það sem hefur náð og haldið velli hvað lengst þegar horft er til veganrétta. Ýmsar útfærslur eru til, en í grunninn þá eru alltaf hnetur til staðar, einhverjar tegundir rótargrænmetis og stundum baunir. Með þessum rétti skiptir líka máli hvert meðlætið er og hvers kyns sósa er borin fram. Fyrir þá sem kjósa rauðvín er ágætt að velja rauðvín í fínlegri kantinum eins og til dæmis Pinot Noir, rósavín væri einnig skemmtilegur kostur og ef velja á hvítvín gæti Chardonnay átt vel við.  

 

Buffaló vængir úr blómkáli 
Réttir sem eru með sterkri sósu eins og chilli sósu er hentugt að para með vínum sem eru með örlítilli sætu, eins og til dæmis Pinot Gris frá Alsace eða hálfsætir þýskir Riesling. Svo má ekki gleyma að freyðivín með örlítilli sætu væri líka ágætis valkostur. 

 

Rósakál  
Rósakál á auðvitað alltaf við en virðist sérstaklega bera á góma um jólin. Það fer auðvitað alveg eftir því hvernig það er eldað og hvað er framreitt með því, en ef einhver sítrus er í uppskriftinni er kjörið að velja vín sem ber slík einkenni, t.d. Chardonnay, Sauvignon Blanc eða Riesling. 

 

                                  Njótið vel og gleðilega hátíð!

 


Berglind Helgadóttir DipWSET
Vínráðgjafi