Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Páskalambið

Hér á Íslandi er vinsælt að hafa lambakjöt um páskana. Þegar kemur að því að velja vín með matnum er ýmislegt sem vert er að hafa í huga en þar skiptir eldunin máli, sem og meðlæti.  

Rauðvín frá Rioja henta vel með lambinu og geta Crianza, Reserva og Gran Reserva allar hentað vel með lambalæri, það er aðallega spurning um það hvort maður vilji fá ávaxtaríkara og minna tunnuþroskað vín (Crianza) eða þroskaðri bragðeinkenni og meiri eikaráhrif (Gran Reserva). Þeir sem vilja skoða kröftugri rauðvín frá Spáni geta leitað að vínum til dæmis frá Ribera del Duero. 

Ítölsku rauðvínin frá Toskana og þá sérstaklega undirsvæðum eins og Chianti Classico myndu henta vel og þeir sem vilja fara í kröftugri deildina geta skoðað Brunello di Montalcino eða Vino Nobile di Montepulcaino. Ekki má heldur gleyma Nebbiolo vínum frá Piemonte, eins og Barolo eða Barbaresco. 

Nýsjálendingar, Ástralir og Grikkir eru nokkuð duglegir að neyta lambakjöts og er vert að skoða rauðvín frá þeim löndum ef matreiða á lambið með öðrum hætti. Einnig gæti verið spennandi að skoða úrvalið frá minna þekktum löndum, eins og Georgíu, Króatíu, Líbanon og fleirum. Hægt er að stilla vöruleitina á rauðvín og velja svo úr löndum. 

Ef velja á hvítvín með lambinu er ágætt að fara í kröftugri hvítvín sem hafa fengið eikarmeðferð, eins og t.d. Chardonnay frá ýmsum löndum. Þá er til dæmis hægt að skrifa eik eða vanilla í leitarstrenginn í vöruleitinni og sjá hvaða möguleikar eru í boði í hvítvínsdeildinni. Svo má líka alltaf skoða að hafa með freyðivín gert með hefðbundinni aðferð, eins og til dæmis Kampavín eða Crémant. Ef kjötið og meðlætið þykir yfirdrifið fyrir hvítvínið gæti verið ágætt að auka við sýruna í réttinum, til dæmis með því að kreista sítrónu eða límónu yfir kjötið.  

Í bæklingnum Lamb og vín má finna enn fleiri ábendingar um skemmtilegar leiðir til að para saman lambakjöt og vín. 

Svo minni ég á okkar frábæra starfsfólk í Vínbúðunum sem þið getið leitað til og fengið ráðgjöf hjá. 

Gleðilega páska! 


Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi