Eflaust eru einhverjir farnir að huga að jólamatnum og þó svo að oftast fari mesta púðrið í aðalréttinn (og eftirréttinn, vil ég meina) þá má ekki gleyma forréttinum. Sumir leita í hefðina á meðan aðrir fara óhefðbundnar leiðir. Ef velja á vín með forréttinum þá eru nokkrar leiðir færar og ef þið þurfið aðstoð við valið, þá er frábært starfsfólk Vínbúðanna tilbúið að koma með tillögur. Það sem er þó alltaf vert að hafa í huga er manns eigin smekkur og því er tilvalið að láta starfsfólk okkar vita af því hvað er í mestu uppáhaldi þegar fengin er ráðgjöf.
Rækjukokteill
Það eru til nokkrar uppskriftir af þessum klassíska nostalgíu forrétti og það sem skiptir máli í þessu samhengi er sósan og annað innihald sem borið er fram með rækjunum. Ef sósan er sterk eða krydduð getur verið frábært kostur að velja hvítvín með örlítilli sætu, eins og til dæmis Pinot Gris frá Alsace.
Humarsúpa
Margir eru með einhvers konar útgáfu af humri í forrétt og getur þá verið frábært að para hann saman með Chablis eða öðru Chardonnay frá Bourgogne í Frakklandi, en ef humarinn er kominn út í súpu þá lyfta ósæt freyðivín súpunni upp á hærra plan. Kampavín eru frábær kostur en önnur ósæt freyðivín eins og Crémant eða Cava ganga líka alveg upp.
Aspassúpa
Á meðan við erum ennþá í súpupælingunum þá eru sumir með aspassúpu í forrétt, nú eða þykkja hana og bera fram í tartalettum. Þá er skemmtilegt að para saman nýsjálenskan Sauvignon Blanc, en í bragðeinkennum sumra má einmitt finna aspas!
Reyktur og grafinn lax
Lax, hvort sem hann er reyktur eða grafinn ,er vinsæll um hátíðirnar og fellur Pinot Gris frá Alsace vel að hvoru tveggja. Þeir sem vilja ekki hafa einhverja sætu í vínunum sínum gætu valið ósæt freyðivín eða ósætan Riesling frá Alsace.
Carpaccio
Fínleiki nautacarpaccio myndi henta vel með Chianti vínum frá Ítalíu, eða jafnvel Barolo eða öðrum sambærilegum vínum frá Piemonte úr Nebbiolo þrúgunni.
Njótið vel!
Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi