Mánudaginn, 4. nóvember 2024, voru árleg verðlaun veitt fyrir heimsins bestu víngarða til að heimsækja (e. World’s Best Vineyards). Athöfnin var haldin hjá Sussex framleiðandanum Nyetimber í Bretlandi og var Tim Atkin MW (e. Master of Wine) kynnir hátíðarinnar.
Listinn telur upp 50 framleiðendur um allan heim sem þykja skara fram úr þegar kemur að upplifun heimsókna, hvort sem það er til að smakka vín eða læra um vínrækt og víngerð. Sumir þessara staða eru merkilegir fyrir hönnun og arkitektúr og einhverjir eru með kjallara sem eru á lista UNESCO. Margir hverjir eru einnig með frábært útsýni, góða veitingastaði og skarta nokkrir þeirra jafnvel Michelin stjörnu. Einhverjir framleiðandanna bjóða auk þess upp á gistingu. Sumir þessara vínframleiðenda eru lítil, fjölskyldurekin fyrirtæki þar sem eigandinn lóðsar gesti sjálfur um allar koppagrundir.
Verðlaunin eru á vegum William Reed sem einnig veita verðlaun fyrir 50 heimsins bestu veitingastaði, bari og hótel. Kosningin um heimsins bestu víngarða er nafnlaus og eru tæplega 500 einstaklingar sem hafa kosningarétt. Þeir eiga það sameiginlegt að vera ýmist vínþjónar (sommelier), vínblaðamenn, ferðasérfræðingar eða ástríðufullir vínunnendur sem ferðast mikið. Að minnsta kosti 36 kosningabærir fulltrúar eru á hverju svæði fyrir sig. Hægt er að lesa nánar um kosninguna og svæðin á heimasíðunni þeirra.
Á listanum má sjá kunnugleg nöfn sem eiga vörur í hillum Vínbúðanna. Fyrir þau sem eru að skipuleggja sumarfrí næstu sumur og hafa áhuga á að heimsækja vínframleiðendur er tilvalið að kíkja á þennan lista og sjá hvort hann veiti innblástur.
Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi