Það eru ótalmargir sem kjósa að opna freyðivín þegar klukkan slær á miðnætti á gamlárskvöld. Og hvernig er nú best að gera það?
Opna freyðivín
Best er að byrja á því að fjarlægja álfilmuna sem er yfir tappanum. Þegar hún er farin af þarf að losa víravirkið varlega. Mjög mikilvægt er að taka ekki víravirkið strax af og halda tappanum niðri með þumalfingri á meðan það er losað. Það er töluverður þrýstingur í freyðivínsflösku og það er víravirkið en ekki tappinn sem heldur vökvanum í flöskunni. Ég veit ekki hvort það séu til einhverjar tölfræðilegar upplýsingar yfir slys af völdum freyðivínstappa, en þeir geta skotist bæði í fólk og húsmuni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þeir sem vilja skjóta tappanum út í loftið og fá þar með eitthvað af vökvanum með, geta vissulega gert það með varúð.
Þegar búið er að snúa endanum á víravirkinu sex sinnum er hægt að hefjast handa við að snúa flöskunni í hringi með því að halda annarri hendi um botninn á henni á meðan hin höndin er áfram á tappanum. Flöskunni er svo snúið þangað til tappinn fer úr.
Þeim sem finnst óþægilegt að halda fast um tappann með hendinni geta sett diskaþurrku yfir og haldið með henni utan um hálsinn á flöskunni. Þannig skýst tappinn bara upp í þurrkuna en ekki í loftið.
Glös
Það er að mörgu leyti ekkert rétt eða rangt í glasavali þegar bera á fram freyðivín. Þó er best að velja glös sem kallast tulip og eru í minni kantinum. Þau glös henta vel til þess að lyktin berist vel úr glasinu án þess að freyðingin tapist. Flûte glösin (freyðivínsglös) eru mjög algeng og eru fín til að bera fram freyðivín. Gamaldags freyðivínsglös með grunnri en breiðri skál eru mjög falleg og henta vel til að gera gosbrunn, en þó hverfur freyðingin mun fyrr úr þeim glösum heldur en hinum sem talin voru upp á undan.
Hitastig framreiðslu
Flest öll freyðivín eru borin fram kæld, en þó er stigsmunur á því hversu köld er æskilegt að þau séu. Sætari og ávaxtaríkari freyðivínin eru borin fram kaldari en þau sem eru með flóknari bragðeinkennum gers. Þannig myndi til dæmis muna nokkrum gráðum á Asti og árgangs kampavíni; hægt er að dreypa á Asti-inu fljótlega eftir að það kemur úr ísskápnum en árgangs kampavínið mætti alveg fara úr ísskápnum 30-60 mínútum fyrir neyslu.
Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið áramótanna!
Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi