Fyrir þau sem eru tilbúin að leggja upp í ævintýri þegar kemur að vali að veigum fyrir hátíðarmatinn, þá getur verið tilbreyting í að velja bjór með matnum. Vissulega er jólalegra að velja jólabjór, en það er þó ekki einungis jólabjór sem gæti hentað með. Bjórinn er eins fjölbreytilegur og stílarnir eru margir og því er mikilvægt að hafa eigin smekk í huga þegar valinn er bjór.
Hamborgarhryggur og lagerbjór
Saltið og reykta bragðið á samhljóm með lagerbjór. Þeir sem eru fyrir ljósari stíl, þá gæti Helles orðið fyrir valinu en þeir sem vilja aðeins bragðmeiri bjór þá eru Classic bjórarnir ágætis kostur.
Hangikjöt og doppelbock
Prófið Doppelbock með hangikjötinu, en stíllinn og bragðeinkennin sameina gjarnan rúgbrauð, súkkulaði og karamellu. Doppelbock er gjarnan í hærri kantinum hvað alkóhól varðar og þeir sem vilja bjóra með lægra alkóhólinnihaldi geta skoðað Classic bjóra í staðinn.
Kalkúnn og belgískt öl
Kremuð áferð, ávaxtatónar og krydd belgísks öls á vel með fínlegum kalkúninum og öllu því sem borið er fram með honum. Belgísku bjórarnir eru oftar en ekki í hærri kantinum á alkóhólskalanum en yfirleitt gengur skalinn frá Blond, Dubbel, Tripel og upp í Quadrupel.
Súkkulaði og stout
Stout getur stundum einn og sjálfur verið eftirréttur, sérstaklega þeir sem eru bragðbættir með alls kyns gúmmelaði, eða hafa legið í tunnum sem áður hýstu aðrar tegundir áfengis. Með stoutinum er frábært að para saman dökkt súkkulaði. Ef það vill svo til að það leynist gráðostur í ísskápnum þá er tilvalið að prófa hvernig hann smakkast með stout.
Njótið vel og gleðilega hátíð!
Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi