Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Tekíla

Margir sjá fyrir sér skotglas, salthrauk og límónu þegar minnst er á tekíla. Sumir minnast jafnvel á líðan sína daginn eftir í sama samhengi.  

En sem betur fer hefur orðspor tekíla tekið u-beygju undanfarið og mætti kannski þakka það aukinni þekkingu á sterku áfengi og eftirspurn eftir áhugaverðum drykkjum. Innan allra tegunda sterks áfengis má finna áhugaverðar tegundir og eintök sem einkennast af meiri gæðum. Tekíla er þar ekki undanskilið.  

En hvað er tekíla? 

Tekíla á uppruna sinn að rekja til Mexíkó, en samkvæmt lögum má aðeins framleiða það í ákveðnum fylkjum; Jalisco, Nayarit, Guanajuato, Michoacán og Tamaulipas.  

Hráefni 

Tekíla er framleitt úr bláum agave, en það er þykkblöðungur sem minnir á aloe vera plöntuna. Það tekur bláan agave að minnsta kosti sjö ár að ná réttum þroska fyrir framleiðslu á tekíla. Blöð plöntunnar eru skorin af með þar til gerðum ljá þannig að eftir stendur kjarninn sem lítur þá út eins og ananas, enda er hann kallaður piña (í. ananas) á spænsku. Kjarninn getur verið frá 20 kílóum og allt upp í 90 kíló.  

 

Framleiðsla 

Kjarninn er bakaður í sérstökum leirofnum (s. Hornos) í 36-48 klukkustundir. Í sumum tilfellum eru þeir bakaðir í sérstökum þrýstijöfnunarofnum sem stytta eldunar tímann verulega, eða niður í sex klukkustundir. Við hitunina breytist inulín agavesins í sykur sem nýtist til gerjunar. Þegar búið er að hakka kjarnann niður er búinn til áfengur drykkur sem er loks eimaður. Flest tekíla er eimað í svokallaðri potteimingu, sem þykir gefa af sér einkennaríkari spíra. Tekíla getur einnig verið framleitt með samfelldri eimingu sem aftur á móti gefur af sér einkennaminni spíra.  

Þroskun 

Agave bragðeinkenni tekíla eru viðkvæm fyrir þroskun og því er tekíla að öllu jöfnu ekki þroskað í lengri tíma en 5 ár. Það þarf líka að hafa gætur á hvers kyns tunnur eru notaðar í þroskunina, því bragðeinkenni tunnunnar geta yfirtekið agave bragðeinkennin ansi fljótt.  

 

Flokkun 

Tekíla er raðað í ákveðna flokka eftir þroskun og má finna flokkunina á flöskumiðanum. Þá skiptir einnig máli hvaðan sykurinn kemur sem notaður til að gerja agave safann. Tekíla 100% agave þýðir að allur sykur sem notaður er til gerjunar kemur frá bláum agave, en ef það stendur bara tekíla á flöskumiðanum, þá getur allt að 49% sykursins átt sér annan uppruna.  

Abocado er það ferli að bæta ákveðnum innihaldsefnum við spírann með það að markmiði að milda hann. Það getur verið karamellulitur, eikarþykkni, glycerín og sykursíróp. Flöskurnar þurfa ekki að vera merktar með þessu, en ferlið getur verið mikilvægur hluti af þroskaflokkuninni.  

 

 

Hvernig smakkast svo tekíla? 

Ef maður vill njóta tekíla án þess að salt eða límóna spilli fyrir bragðeinkennum þess þá má finna einkennaríkan karakter agavesins í óþroskuðum tegundum, eins og Blanco. Þá eru það jarðartónar, pipar og grösugir tónar sem einkenna drykkinn. Í þeim tilfellum þar sem tunnuþroski fyrirfinnst bætast einkenni tunnuþroskunar, eins og karamella, vanilla og fínlegir reyktónar, við hefðbundin agave bragðeinkenni. 

Eins og komið var inná í upphafi tengja margir tekíla við að drekka hratt. Það er hins vegar alls ekki raunin og má njóta þess sopa eftir sopa eitt og sér, í kokteilum eða með sangritu í glasi með.  

Salud! 

Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi