Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Bjórflokkar

Ljós lager

Ljós lager er vinsælasti flokkur bjórs í dag og á rætur sínar að rekja til borgarinnar Pilsen í Tékklandi. Þetta eru undirgerjaðir bjórar og eru eins og nafnið gefur til kynna ljósir eða gullnir á lit og flestar tegundir bragðmildar, þó með undantekningum. Algengast er að vínandastyrkur sé á bilinu 4,5% - 5,6% en þó eru til tegundir sem hafa minni styrkleika eða meiri. Ljósir lager bjórar eiga að vera ferskir og brakandi og bragð einkennist af korninu sem notað er við framleiðslu bjórsins, nokkuð mikilli freyðingu, og fremur lítilli til miðlungs beiskju. Humlar eru notaðir sem mótvægi við sætuna í maltvökvanum.

Annar lager

Í þessum flokki eru allir þeir lagerbjórar sem flokkast ekki sem hinn algengi ljósi lagerbjór. Erfitt er að greina nákvæmlega hvað einkennir þennan flokk vegna þess hversu fjölbreyttur hann er. Hægt er að finna allt frá mjög möltuðum bjórum eins og bock til mjög reyktra bjóra eins og rauchbier. Beiskja getur verið lítil eða mikil og algengur vínandastyrkur er á bilinu 4,5% til 7,5%.

Belgískt öl

Fjölbreyttur flokkur öls sem geta verið allt frá ljósum, léttum og ávaxtaríkum bjór yfir í dimmbrúnan, þéttan og kröftugan. Belgísk öl einkennast fyrst og fremst af gerafbrigði sem notast er við sem gefur af sér mjög sætkennda ávaxtaríka lykt og bragð. Þó svo að lyktin virki sem sæt þá eru þessi öl það alls ekki alltaf. Í sterkustu útgáfunum af þessum bjórum notast bruggarar við sykur til þess að keyra upp víndandastyrkinn í ölinu. Þessi öl innihalda yfirleitt nokkuð litla beiskju og hafa lítinn ilm eða bragð af humlum.

IPA

Þessum flokki tilheyra allir þeir bjórar sem teljast til IPA, hvort sem þeir koma frá Bandaríkjunum, Bretlandseyjum eða annars staðar frá. IPA eða India Pale Ale er öl sem á rætur sínar að rekja til Bretlands og einkennist í dag í flestum tilfellum af mjög áberandi bragði af þeim humlum sem notaðir eru í framleiðslunni. Bragðeinkenni geta t.d. verið sítrus, trjákvoða, og suðrænir ávextir og innihalda yfirleitt nokkuð mikla beiskju. Vínandastyrkur getur verið frá 4,5% til 10%.

Amerískt og breskt öl

Mjög fjölbreyttur flokkur af breskum ölstílum sem hafa fengið endurnýjun lífdaga í amerískum handverksbrugghúsum. Hér er að finna bjóra sem geta verið ljósir að lit, léttir og bragðmildir eða bjóra sem eru mjög maltaðir, hafa háan vínandastyrk, þéttir og beiskir. Erfitt er að gera grein fyrir ákveðnum bragðeinkennum þar sem fjölbreytnin er mikil en þó má segja að ameríski stíllinn sé í flestum tilvikum beiskari og hafi meira áberandi ilm og bragð af humlum.

Stout og porter

Náskyldir stílar af dökkum bjór sem eiga rætur að rekja til Bretlandseyja. Hluti af maltinu sem notast við framleiðsluna er mjög ristað og gefur því þennan dökka lit. Einkenni stout og porter eru ristaðir tónar, kaffi, lakkrís og súkkulaði. Beiskjan er yfirleitt nokkuð há og einkenni humla eru meira áberandi í stout og porter frá Ameríku. Upphaflega notuðu menn orðið stout til að aðgreina sterkan porter frá venjulegum porter. Í dag er það í raun undir bruggaranum komið hvort hann kalli bjórinn stout eða porter.

Þýskt öl

Þekktastir eru Altbier frá Dusseldorf og Kölsch frá Köln. Báðir þessir stílar eru lageraðir/geymdir á tönkum í nokkrar vikur áður en þeir eru settir á markað og eru kallaðir obergaerige lagerbier eða yfirgerjaður lagerbjór af heimamönnum. Hitastig gerjunar er ekki alveg nægilega hátt til þess að skila af sér eins ávaxtaríkum einkennum eins og þekkist í öðru öli, og einkennast því þessir bjórar því frekar af maltinu og humlunum sem notast er við. Af þessum tveimur stílum er Kölsch ljósari að lit og fínlegri á meðan Altbier er dekkri, maltaðri og beiskari. Algengur vínandastyrkur er 4,5% til 5,5%.

Hveitibjór

Hveitibjóra er hægt að finna í ýmsum útgáfum en tveir algengustu flokkarnir eru Weizen frá suður Þýskalandi sem hafa oftast nokkuð áberandi ilm af banana og negul og Witbier frá Belgíu sem hafa yfirleitt léttari fyllingu en þeir þýsku, auk þess að vera oft á tíðum kryddaðir með hráefnum eins og sítrusberki og kóríander. Hveitibjórar hafa yfirleitt nokkuð mjúka fyllingu, humlaeinkenni eru ekki áberandi og beiskja fremur lítil. Vínandastyrkur getur verið frá 4,5% til 8%.

Ávaxta- og kryddbjór

Eins og nafnið gefur til kynna inniheldur þessi flokkur bjór sem einkennist af ávöxtum kryddi eða öðrum framandi bragðefnum. Í raun fara einkenni þessara bjóra auðvitað algerlega eftir bruggaranum og hvaða krydd eða ávexti hann ákveður að nota við framleiðsluna.

Súrbjór

Fjölbreyttir bjórar, yfirleitt öl, sem samkvæmt hefð innihalda hátt hlutfall hveitis, sem gengið hafa í gegnum ferli sem gerir þá súra. Sýrustig þessara bjóra er misjafnt og fer í raun eftir því hvaðan bjórarnir koma og hverju bruggarinn sækist eftir. Súrbjórar geta verið hreinir og ferskir eða innihaldið ýmsar bakteríur og gerafbrigði, eins og Brettanomyces sem gefur þeim ilm og bragð af heyi, sveit og plástri, svo fátt eitt sé nefnt. Sumir eru látnir liggja á ávöxtum eins og kirsuberjum. Vínandastyrkur getur verið frá 3% til 8%. Heimalönd þessara bjóra eru Belgía og Þýskaland, en önnur lönd hafa verið að sækja í sig veðrið, sér í lagi Bandaríkin.

BJÓRFLOKKAR (PDF)