Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Áfengisneysla fyrir tvítugt er skaðleg

Hangirðu hérna fyrir unglinginn?Unglingar sem byrja að neyta áfengis um eða fyrir fimmtán ára aldur eru í fjórum sinnum meiri hættu á að ánetjast alkóhóli eða öðrum vímuefnum og verða fyrir skaða en þeir sem byrja að drekka eftir tvítugt. Þetta er niðurstaða fjölmargra rannsókna og því er mikilvægt að komið sé í veg fyrir að fólk undir tvítugu neyti áfengis.

Sú staðreynd að áfengi er löglegt og gjarnan sett í samhengi við jákvæða skemmtun, fær okkur til að gleyma því að áfengi er vímuefni sem getur valdið skaða, jafnvel óbætanlegu tjóni. Það er vert  að hafa í huga að aldurstakmark í áfengislögum er ekki úr lausu lofti gripið.  

Sannleikurinn er að mörg dauðsföll meðal ungs fólks má rekja til áfengisdrykkju, ekki síður en til neyslu ólöglegra fíkniefna.
Foreldrar verða yfirleitt mjög undrandi þegar þeir heyra þetta. Áfengi á ennfremur þátt í flestum umferðarslysum meðal ungs fólks á aldrinum 17-24 ára.


Skaðsemi áfengisdrykkju fyrir tvítugt er fjölþætt. Þar má nefna vandamál tengd heilsu, félagslegri hæfni og hegðun. Þá eru ótalin þau áhrif sem áfengi hefur á dómgreind sem leiðir til glannaskapar, slysa vegna ölvunaraksturs, ofbeldis, misnotkunar og sjálfsvíga.

Hætta á þunglyndi er mun meiri meðal unglinga sem neyta áfengis en hinna sem ekki drekka. Þeir hafa frekar sjálfsvígshugsanir, eiga oftar í félagslegum vanda og árásargirni eykst í hlutfalli við drykkjuna.

Drykkja meðal unglinga virðist, samkvæmt niðurstöðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), fara vaxandi á Vesturlöndum og alvarlegast er hversu hún virðist vera álitin léttvæg meðal almennings. Forráðamenn og unglingar gera sér e.t.v. ekki grein fyrir því hve áfengisneysla ungmenna getur haft alvarlegar afleiðingar.

Hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni liggja fyrir upplýsingar um að allt að fjórðungur dauðsfalla fólks á aldrinum 15-29 ára í Evrópu séu beinar afleiðingar áfengisneyslu, svo sem vegna umferðarslysa, eitrana, sjálfsvíga og morða.

Sérfræðingar benda einnig á að vaxandi kröfur samfélagsins komi illa við margar fjölskyldur. Mörg ungmenni líða fyrir neikvæða sjálfsmynd og vanmetakennd. Við þær aðstæður hefur áfengisdrykkja sterkari hljómgrunn meðal ungmenna.

Hætta á heilaskaða

Því yngri sem unglingar eru þegar þeir byrja að neyta áfengis og því meira magn sem þeir drekka, því verri áhrif hefur áfengisneyslan á heila þeirra. Þroskatími heilans fram að tvítugu er afar mikilvægur. Langtímaáhrif áfengisneyslu á þessum viðkvæma aldri getur haft áhrif á námsgetu, tilfinningalíf og aðra hæfni.

Mestu skemmdirnar verða við mikla áfengisneyslu á stuttum tíma. Slíkt gerist t.d. í fyllerísdrykkju.

Oft hefur drykkja í för með sér varanlegan skaða sem kemur ekki síst fram í vitrænni skerðingu. Rannsóknir hafa t.d. sýnt að unglingar sem neyta áfengis standa sig mun verr á ýmsum minnisprófum heldur en þeir sem drekka ekki.

Mikil áfengisneysla ungs fólks hefur skaðleg áhrif á stöðvar fremst í framheilanum en þar leynist hæfni okkar til að hafa stjórn á skapi okkar, taka ákvarðanir og vega og meta aðstæður sem upp koma.

Framheilinn er afgerandi í mótun persónuleikans og því skiptir afar miklu máli að hann fái að þroskast eðlilega. Áfengiskaupaaldur á Íslandi er tuttugu ára og það er ástæða fyrir því. Stöndum vörð um unga fólkið okkar og stuðlum ekki að áfengisdrykkju ungmenna með því að kaupa áfengi fyrir yngri en tuttugu ára.

UNGT FÓLK ÆTTI AÐ LÁTA ÁFENGI EIGA SIG FRAM TIL TVÍTUGS, AF ÞVÍ AÐ:

Áfengi skaðar heila sem er að þroskast. Heilinn er ekki fullþroska fyrr en við tuttugu ára aldur.

Því yngri sem einstaklingur byrjar að neyta áfengis því meiri líkur eru á alkóhólisma og því meiri hætta á því að ánetjast harðari vímuefnum.

Áfengisneysla ungmenna hefur neikvæð áhrif á námsgetu

Áfengisneysla skerðir dómgreindina – jafnvel til frambúðar.

Skert dómgreind eykur líkur á:

  • Slysum
  • Þunglyndi
  • Misnotkun
  • Ofbeldi
  • Óábyrgu kynlífi og þar með ótímabærri þungun
  • Áfengiseitrun
  • Árásargirni
  • Félagslegum vandamálum
  • Sjálfsvígum

Höfundur greinarinnar:
Jórunn Frímannsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og
ritstjóri www.doktor.is