Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Unglingadrykkja

Unglingar

Að fá unglinginn sinn drukkinn heim er reynsla sem flestir foreldrar vildu vera án og er sú reynsla sem þeir eiga hvað erfiðast með að deila með öðrum foreldrum. Slíkar reynslusögur hafa ekki verið algengar á foreldrafundum unglingadeilda grunnskóla
hvað þá heldur á foreldrafundum í framhaldsskólum. Samt er það svo að foreldrar eru kvíðnir þegar dregur að lokum grunnskólans um hvernig börnin muni fagna því og svo kemur næsti áhættutími sem eru busaböll framhaldsskólanna. En hvað geta foreldar gert?

Byrjunaraldurinn virðist skipta sköpum um afleiðingar áfengisneyslu og því fyrr sem börn byrja að drekka því meiri verður skaðinn. „Hættan á alkóhólisma minnkar um 14% við hvert ár sem neyslan frestast. Þeir sem eiga á hættu að byrja snemma að drekka eru börn sem leiðist fljótt, sem forðast neikvæðar afleiðingar af eigin gjörðum, geta illa beðið eftir umbun og hafa alist upp við drykkju foreldra,“ segir Sigurlína Davíðsdóttir dósent í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ. Hún segir ennfremur að oft eigi unglingar sem eru í neyslu sögu um afbrot, lélega tengingu við skóla, síngjarnt gildismat og séu líklegir til að stunda óvarið kynlíf, fái frekar kynsjúkdóma og eignist börn ung.

Mikilvægt er að foreldrar kynni sér niðurstöður rannsókna og forvarnir gegn unglingadrykkju. Þar hefur komið fram að mikilvægt er að þekkja vini barna sinna og hafa í huga landslög um 18 ára foreldraábyrgð. Áfengislöggjöfin er líka eitthvað sem gott væri að kynna sér og ræða. Einnig sú  sameiginlega ábyrgð sem allir fullorðnir þegnar þessa lands hafa á börnum. Foreldrar eru minntir á útivistartímann, að þeir viti hvar börnin eru og með hverjum, að kaupa ekki áfengi fyrir yngri en 20 ára og leyfa ekki eftirlitslaus partý eða útilegur þar með talið sumarbústaðaferðir og hópferðir unglinga t.d. í nágrannabyggðir. Kannanir sýna að samverustundir fjölskyldunnar eru mikilvægar fyrir þroska barna og einnig hefur komið fram að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum en þau eiga nú kost á. Öll þurfum við að axla ábyrgð og vera meðvituð um það sem að okkur snýr. Á það ekki einungis við foreldra heldur líka skemmtanahaldara, þá sem stunda áfengisverslun, vínveitingamenn og ekki síst sveitarstjórnir og sýslumenn um allt land. Á haustin eru það ekki bara busaböllin sem eru nánast eins og manndómsvígslur heldur eru menningarhátíðir á stórhöfuðborgarsvæðinu ekki síður vettvangur fyrir slíkt. Þá eru margir unglingar að fóta sig í nýjum aðstæðum, í nýjum vinahópum og nýjum skóla.

Unglingarnir eru á breytingaskeiði og eru að máta sig sem fullorða. Þeir eru í raun að búa sig til sem fullorðnar persónur og eru að þreifa sig áfram sem kynþroska verur. Þau eru að undirbúa sjálfstæða tilvist sína og takast á við það með ýmsum hætti. Sumum virðist það auðveldara en öðrum. Foreldrar ættu því að styðja vel við börnin sín og gera hvað þeir geta til að ræða við þau um áhættur og áreiti sem fylgja þessu tímabili. Að breytast úr  grunnskólanema í framhaldsskólanema er þroskaferli og reynir verulega á aðlögunarhæfni og þrautseigju þorra unglinga. Á unglingsárunum verða fleiri og átakameiri breytingar en á öðrum tímabilum ævinnar hjá mörgum. Þá eru margir að stíga sín fyrstu skref í sjálfstæðu lífi sem kemur fram á margvíslegan hátt. Unglingar geta gripið til ýmissa ráða, þeir eru á mörkum þess að vera börn eða fullorðnir og áhættuhegðun heyrir til þessa æviskeiðs öðrum fremur. Því skiptir máli þegar hugað er að forvörnum að unglingar geti reitt sig á stuðning foreldra sinna og sinna nánustu.

Á undanförnum áratugum hafa niðurstöður fjölmargra rannsókna um allan heim leitt getum að því að bjargráð unglinga hafi áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði þeirra, almenna líðan og félagslega aðlögun. Þar skiptir félagsgerð grenndarsamfélagsins og aðstæður unglinga miklu máli svo og viðbrögð þeirra og foreldra þeirra við aðstæðunum. Við getum haldið áfram að velta fyrir okkur hvað það er sem foreldrar, skóli og umhverfi geti gert til styrkja betur börn og unglinga til að takast á við vandamál og andstreymi. Stór hluti hamingjunnar er talinn felast í því að taka á verkefnum lífsins með æðruleysi, rækta okkar innri mann og auðsýna fjölskyldu og öðrum vinum kærleika, skilning og stuðning í ólgusjó nútímatilveru. Allt eru þetta þættir sem við eigum auðlind af og getum veitt ókeypis“. Hver myndi ekki vilja gefa barni aukið sjálfstraust í fermingargjöf eða þegar viðkomandi hefur nám í framhaldsskóla eða stendur á tímamótum.

Niðurstöður rannsókna segja að eftirlit foreldra, stuðningur þeirra, magn tíma sem foreldrar verja með börnum sínum, tengsl foreldra við aðra foreldra og vini barna þeirra dragi úr líkum á vímuefnaneyslu. Einnig kemur fram að í skólum þar sem foreldrar þekkja aðra foreldra og vini barnanna sinna eru minni líkur á því að hver einstakur nemandi neyti áfengis óháð því hvort foreldrar hans tilheyri þessu tengslaneti foreldra eða ekki. Mikilvæg forvörn er að foreldrar geri sér grein fyrir ávinningi þess að þeir starfi saman og eigi gott samstarf við skólann. Því meira umburðarlyndi sem við sýnum, því meiri líkur eru á unglingadrykkju. Því lengur sem við getum frestað byrjunaraldrinum því minni líkur eru á að unglingarnir okkar lendi í vandræðum og einnig minni líkur á að vandræðin verði alvarlegri.

Heimili og skóli - logo

Foreldrar geta haft mikil áhrif á það hvort og hvenær unglingurinn byrjar neyslu og með samtakamætti hafa foreldrar sameinast um ýmis uppeldisleg gildi eins og hér að ofan greinir. Til að unglingurinn geti staðið gegn hópþrýstingi um að hefja neyslu þarf hann umfram allt virkan stuðning foreldra sinna.

Helga Margrét Guðmundsdóttir,
Verkefnastjóri hjá Heimili og Skóla - landssamtökum foreldra.
Úr Vínblaðinu (3.tbl.7.árg)