Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

A A A A T S J Ú Ú Ú ! Áfengi og ofnæmisviðbrögð

Ofnæmisviðbrögð

Margir kannast við það að roðna óhóflega eftir eitt vínglas, hnerra, klæja í augu eða fá nefrennsli.

Þessum einkennum svipar mjög til þess sem gerist við fæðuofnæmi. þegar einstaklingur borðar mat sem hann hefur ofnæmi fyrir fer ónæmiskerfi hans að framleiða mótefni og þar á meðal er efni sem kallast histamín. Þau einkenni sem koma fram við losun histamíns eru kláði, þroti í slímhúð og aukin framleiðsla á slími, vöðvakrampar, roðaflekkir á húð og útbrot ásamt fleiri einkennum. Svona viðbrögð við neyslu áfengis þarf þó alls ekki að þýða að þú hafir ofnæmi fyrir áfengi, því þekkt er að áfengi innihaldi histamín. Neysla á ákveðnum tegundum áfengis getur því valdið einkennum sem eru sambærileg þeim sem koma fram við fæðuofnæmi, án þess þó að um eiginlegt fæðuofnæmi sé að ræða.

Það er þó ekki svo að ekki sé til ofnæmi eða óþol fyrir áfengi. Í áfengi eru flókin efnasambönd og alls ekki vitað hvað er í sumum vínum en ekki öðrum sem veldur t.d. mígreni. Það er heldur ekki vitað af hverju einstaklingar þola sum vín en önnur alls ekki. Tvö efni hafa þó verið rannsökuð töluvert með tilliti til áhrifa á ofnæmi og ofnæmisviðbrögð, en það er rotvarnarefnið súlfít, sem er nánast í öllu áfengi og histamín, sem er oft að finna í léttvíni.

 

 Roði

Histamín ýtir undir ofnæmiseinkenni

Histamín getur valdið almennum ofnæmiseinkennum eins og nefrennsli, kláða í augum, roða á húð og fleiri einkennum. Histamín í áfengi hefur einnig þau áhrif að ýta undir öll ofnæmiseinkenni og -viðbrögð. Til að mynda ef einstaklingur er með ofnæmi fyrir ryki, en finnur ekki fyrir því dagsdaglega. Við neyslu áfengis gætu ofnæmisviðbrögðin komið fram, en ofnæmisvaldurinn væri engu að síður rykið en ekki áfengið.

Histamín er að finna í ýmsum matvörum svo sem spægipylsum, makríl, sardínum og ekki síst í sterkum ostum og léttvíni.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á vínum og histamínum og reynt að ákvarða histamínmagn mismunandi vína. Það hefur hins vegar ekki tekist og virðist engin leið að segja með áreiðanlegum hætti um magn histamína í vínum. Ekki einasta er mismunandi frá náttúrunnar hendi hversu mikið histamín er í framleiðslu víns, heldur hefur það einnig sýnt sig að histamín í sömu framleiðslulotu getur verið mismikið frá flösku til flösku.

Einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir histamíni í vínum, ættu að láta rauðvín vera og sleppa því alveg að drekka það. Auk þess ættu fleir að varast freyðivín sem innihalda tyramín í miklu magni. Tyramín er afar skylt histamíni og getur gefið svipuð eða sömu einkenni.

 

5% astmasjúklinga þola illa súlfít. 

Súlfít getur ýtt undir astmaeinkenni hjá þeim sem hafa astma af ýmsum öðrum ástæðum (á við um 5% fleira sem hafa astma). það getur verið dýrt að vera með astma og vera einn af þeim sem þola illa súlfít, en finnast vín gott.

Súlfít er í öllu léttvíni, bæði rauðu og hvítu til að byrja með, en magnið minnkar eftir því sem vínið eldist. Astmasjúklingar ættu því að kaupa gamalt og gott vín. Ofnæmissérfræðingurinn Ole Zetterström á ofnæmismiðstöðinni í Linköping í Svíþjóð ráðleggur öllum astmasjúklingum að kaupa dýr og gömul léttvín og telur að til að vera viss þurfi þau að kosta 500 krónur sænskar eða meira (500 SEK eru um 4.000 ISK.). Það er ekki á allra færi að borga allt að 1.000 krónur fyrir glas af léttvíni og er ansi dýrt að vera vínáhugamaður með astma samkvæmt þessu.

Ofnæmisviðbrögð astmasjúklinga við súlfít í vínum geta verið kröftug, en ekki er vitað til þess að neinn hafi dáið af þeim sökum. Ofnæmissjúklingar verða einfaldlega að spá verulega í það hvað fleir drekka og finna út hvað þeir þola.

Það er útbreiddur misskilningur að súlfít sé einungis í hvítvíni, ekki í rauðvíni, en það er ekki rétt. Reyndar er súlfít yfirleitt í minna magni í rauðvíni. En það eru fyrst og fremst astmasjúklingar sem fá ofnæmiseinkenni vegna súlfít, þar sem viðbrögðin eru þess eðlis að loftvegurinn dregst saman. Einstaklingar sem hafa fundið fyrir ofnæmiseinkennum við áfengisneyslu þurfa að velta því fyrir sér hvað þeir þola og hvaða vín hentar þeim. Astmasjúklingar þurfa að fara sérstaklega varlega og finna út hvort þeir tilheyra þessum fimm prósentum sem ekki þola súlfít. Vægari ofnæmiseinkenni eins og roða, nefrennsli eða kláða í augum má koma í veg fyrir með því að taka ofnæmistöflu áður en áfengis er neytt. Vægar ofnæmistöflur má fá í apóteki án lyfseðils og virka þær yfirleitt vel.

 

Höfundur greinarinnar:
Jórunn Frímannsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og
ritstjóri www.doktor.is