Vefsíðan Vöruvaktin fór í loftið í vikunni í samstarfi níu eftirlitsstjórnvalda sem vilja stuðla að aukinni og einfaldari upplýsingagjöf til neytenda. Öll viljum við treysta því að vörurnar sem við verslum standist þær kröfur og staðla sem gilda á Íslandi. Á vefsíðunni tilkynna stjórnvöldin um gallaðar vörur og upplýsa um innkallanir, fræða um vöruöryggi almennt og skapa vettvang til að móttaka tilkynningar frá neytendum um hættulegar/skaðlegar vörur.
ÁTVR er sem dæmi þátttakandi í þessu samstarfi á grundvelli eftirlitshluverks síns með tóbaki og jurtavörum til reykinga, HMS er í þessu samstarfi á grundvelli eftirlitshlutverks síns með byggingarvörum, barnavörum o.fl. Hvort heldur sem neytandi vill koma á framfæri tilkynningu um gallað tóbak eða barnavöru þá getur hann gert það í gegnum þessa vefsíðu og treyst því að tilkynningin berist réttri stofnun.
Hægt er að hafa samband við Vöruvaktina í gegnum tölvupóstfangið voruvaktin@hms.is.
Myndin er tekin á fundi með fulltrúum eftirlitsaðila, en það eru ÁTVR, Fjarskiptastofa, Geislavarnir ríkisins, HMS, Neytendastofa, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlitið, Lyfjastofnun og Samgögustofa sem standa vaktina.
Hér er hægt að sjá fréttatilkynningu frá hópnum.