Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ný skýrsla WHO staðfestir mikilvægi áfengiseinkasölu

06.02.2025

Í nýrri skýrslu sinni leggur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO/Europe, áherslu á norrænu áfengiseinkasölurnar sem mikilvæga fyrirmynd til að draga úr áfengisneyslu og neikvæðum áhrifum á lýðheilsu. 

Norrænu áfengiseinkasölurnar á Íslandi, Finnlandi, Noregi, Færeyjum og Svíþjóð hafa stuðlað að tiltölulega lítilli áfengisneyslu og minni áfengistengdum skaða á Norðurlöndum. 

Áfengisneysla í Evrópusambandinu (ESB) hefur haldist að mestu óbreytt í meira en áratug og er það svæði sem hefur hvað mesta neyslu á heimsvísu. ESB er sem stendur ekki á réttri leið til að ná því markmiði að minnka áfengisneyslu.

Til að bregðast við þessu hafa starfshættir þeirra ESB landa þar sem áfengisneysla hefur farið minnkandi verið kannaðir.
Í skýrslunni er farið yfir það líkan sem vel hefur reynst á Norðurlöndunum og önnur ESB lönd gætu lært af.

Fyrirmynd til að draga úr skaða

Ólíkt áfengissölu í hagnaðarskyni dregur norræna leiðin úr áfengisneyslu, meðal annars með því að reisa skorður við fjölda sölustaða og lengd afgreiðslutíma í þeim tilgangi að takmarka aðgengi. Áfengiseinkasölur í eigu ríkisins starfa þannig með skýrt hlutverk: að vernda lýðheilsu umfram hagnað.

Með takmörkunum á fjölda útsölustaða og opnunartíma, áherslu á skilríkjaeftirlit og að beita ekki söluhvetjandi aðferðum, leggja norrænu áfengiseinkasölurnar áherslu á að viðurkenna áfengi sem skaðlega vöru sem hefur umtalsverð félagsleg, efnahagsleg og heilsufarsleg áhrif, frekar en að meðhöndla það sem venjulega neysluvöru.
„Þessi nálgun að setja lýðheilsu í fyrsta sæti í stjórnun smásölu áfengis á Norðurlöndum er frábært dæmi um áfengisstefnu sem virkar,“ segir Dr Carina Ferreira-Borges, hjá WHO/Europe.„Í löndum þar sem ríkið fer með einkasölu á áfengi er minni áfengisneysla á mann samanborið við meðaltal ESB, auk lægri tíðni skaða sem rekja má til áfengisneyslu, allt frá lifrarsjúkdómum, krabbameinum og hjarta- og æðasjúkdómum til meiðsla og drukknunar.“ 

Þrátt fyrir mikinn opinberan stuðning við áfengiseinkasölur og sannaðan heilsufarslegan ávinning, gefa nýlegar lagaframkvæmdir í nokkrum Norðurlöndum vísbendingar um hugsanlega breytingu í átt að einkavæðingu á smásölu áfengis, sem gæti dregið úr áratuga árangri í lýðheilsu.

„WHO/Europe leggur áherslu á að aukið framboð áfengis gæti snúið við jákvæðum lýðheilsuvísum sem Norðurlönd hafa náð yfir áratuga stýrða áfengissölu,“ segir Dr. Ferreira-Borges.

Í skýrslunni skorar WHO/Europe á stjórnvöld í Evrópu að forgangsraða heilsu fram yfir hagnað og standast sókn í átt að einkavæðingu.

Skýrsluna má nálgast hér