Leiðbeiningar

Rekjanleikakerfi fyrir tóbaksvörur

Ein helsta breytingin sem verður með nýju lögunum er að allir einingapakkar tóbaksvöru sem seldir verða á Íslandi skulu merktir með einkvæmu auðkenni (e. Unique Identifier). Með því verður hægt að rekja feril vöru frá framleiðenda til fyrsta smásala. Þannig þurfa framleiðendur, innflytjendur, heildsalar og  flutningsaðilar að skanna inn og út vörur til staðfestingar á því hvaða vara er stödd á hvaða stað og hvenær. Þessir aðilar þurfa að aðlaga tæknilausnir að rekjanleikakerfinu til að geta tekið þátt.

Auk þessara aðila þurfa smásalar einnig að skrá sig í rekjanleikakerfið þegar þar að kemur.

Ákvæði laganna um skráningu og rekjanleikakerfi taka gildi 11. maí 2025.

Vakin er athygli á því að reglugerð um rekjanleikakerfið er í vinnslu í heilbrigðisráðuneyti. Ef reglugerðin leiðir til breytinga verða þær kynntar við fyrsta tækifæri.   

Fyrirkomulag rekjanleikakerfisins og hvernig það snýr að ÁTVR verður kynnt nánar síðar.

Handbók ESB fyrir hagaðila í evrópska rekjanleikakerfinu lýsir hlutverkum hagaðila í meginatriðum.

Kröfur um viðvörunarmerkingar, heiti og umbúðir

Reglugerð 1250/2024 um útlit og viðvörunarmerkingar tóbaksvara, losun skaðlegra tóbaksefna, mæliaðferðir og skýrslugjöf tekur gildi 1. maí 2025. Þó öðlast ákvæði um einsleitar umbúðir ekki gildi fyrr en 24 mánuðum eftir gildistöku. 

Í reglugerðinni eru ákvæði um útlit, stærð og lögun tóbaksvöru og mynd- og textaviðvaranir um skaðsemi tóbaks. Fjallað er um merkingar og umbúðir í kafla IV og tengdum viðaukum. 

Í grein 20 er fjallað um einsleitar umbúðir tóbaksvara sem tekur gildi 1. maí 2027.

Í bráðabirgðaákvæðum er veitt heimild til að fylgja áfram eldri reglugerð 790/2011 um viðvörunarmerkingar:

  • Til 1.5.2026 má flytja inn vörur
  • Til 1.11.2026 má hafa vörur í sölu

Bann við sölu

Með breyttum lögum 6/2002 um tóbaksvarnir er  6 gr. b fjallað um vörur sem er óheimilt að selja á Íslandi. 

Sígarettur og vafningstóbak með einkennandi bragði verður óheimilt að selja eftir 11. janúar 2028. Á það einnig við um vörur sem innihalda bragðefni í einhverjum efnisþætti.

Í greininni er jafnframt fjallað um aðrar tóbaksvörur sem er óheimilt að selja m.a. vegna aukefna.

Einnig er óheimilt að selja munntóbak á Íslandi.