Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Októberfest

Á hverju ári er haldin risastór hátíð í Munchen í Þýskalandi. Þessi hátíð, Októberfest, er einnig frægasta hátíð Þýskalands. Það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá flestum þegar hana ber á góma er bjór, sem er nú kannski ekkert undarlegt, þar sem hann gegnir stóru hlutverki á hátíðinni og þar er borinn fram sérstakur bjórstíll kenndur við hátíðina, sem bjórframleiðendur víða um heim apa eftir bjórgerðarmönnum svæðisins.

 

Eitt það skrýtnasta við októberfest er að hún er ekki haldin í október, en það á sér einfalda skýringu; veðrið er einfaldlega betra í september og því var henni flýtt. Reyndar eru síðustu dagar októberfest í október, en lokadagur þessarrar sextán daga hátíðar er fyrsti sunnudagur októbermánaðar og frá því að Austur- og Vestur Þýskaland voru sameinuð, hefur hátíðin verið lengd um einn eða tvo daga ef sunnudaginn ber upp á fyrsta eða annan dag mánaðarins, til að sameiningardagurinn þriðji október, sé alltaf með.


Októberfest er tilkomin vegna mikillar hátíðar þann tólfta október 1810, en þá gengu í hjónaband Ludwig krónprins og Theresa von Sachsen- Hildburghausen. Öllum borgarbúum var boðið til veislunnar, og heitir svæðið sem hátíðin er haldin á Theresienwiese, eða Theresuengi, eftir krónprinsessunni. Miklar kappreiðar voru haldnar og menn vildu endurtaka þær árið eftir, en það varð kveikjan að þessari árlegu hátíð, en kappreiðarnar eru þó ekki lengur hluti af hátíðarhöldunum.

 

Skrúðgöngur setja svip sinn á hátíðina, en hátíðin hefst á skrúðgöngu eigenda bjórtjaldanna, sem flykkjast á svæðið ásamt afgreiðslufólki og hljómsveitum bjórtjaldanna, og eru allir í sínu fínasta pússi. Á hádegi fyrsta daginn er hleypt af byssum og við mikla viðhöfn slær borgarstjórinn tappann úr fyrstu bjórtunnunni. Í hinum ýmsu skrúðgöngum má sjá fólk í þjóðbúningum,
riffilbera, hreinræktaða hesta, uxa, ásamt vögnum í kjötkveðjustíl, svo eitthvað sé nefnt.

 

Í fyrstu var boðið upp á bjór á nokkrum básum á svæðinu, en básunum var fjölgað ár frá ári, til að anna eftirspurn. Árið 1896 voru bjórtjöldin tekin í notkun og stóðu þá aðalsmenn og bjórframleiðendur að þeim, en bjórtjöldin eru eitt af aðalsmerkjum Októberfest. 

 

Klassíski bjórstíllinn sem borinn er fram á Októberfest, er ýmist kallaður Oktoberfest eða Märzen, eftir marsmánuði, þegar hann er bruggaður. Hér áður fyrr var mars lokamánuður bruggtímabilsins og bjórinn sem þá var bruggaður, þurfti að lagerast yfir sumarið og var þá tilbúinn til neyslu í september. Bjórinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina, var upphaflega dökkur, eins og flestir bjórar á þeim tíma, en árið 1872 kom fram bjór í Vínarstíl, rafgullinn á lit, sem lengst af var staðallinn fyrir bjór hátíðarinnar. Í dag hefur bjórinn verið aðlagaður að alþjóðlegum smekk og er orðinn ljós á lit, og hefðbundna áfengisprósentan, 5,5 - 6%, hefur verið lækkuð um hálft prósent. En bjórinn á nú, sem áður, að vera bragðþéttur, með mjúkt maltbragð og litla humlabeiskju. Að meðaltali heimsækja októberfest rúmlega sex milljón manna, en sum ár allt að sjö milljónir. Um 72% gestanna eru frá Bæjaralandi og um 15% eru útlendingar, en gestirnir koma allsstaðar að úr heiminum, hvort sem er nærliggjandi löndum, jafnt sem austurlöndum fjær.

 

Magnús Traustason, vínsérfræðingur (úr Vínblaðinu, 3.tbl.6.árg.)