Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Baska ostakaka

Þegar hugsað er um eftirrétti á grill er örugglega það fyrsta sem mörgum dettur í hug bananar með súkkulaði. Það er vissulega orðinn svo að segja klassískur eftirrétta grillréttur, ásamt sykurpúðum, en ég var svo heppin að rekast á uppskrift um daginn sem heillaði mig algjörlega; Baska ostakaka.
Þessa ostaköku er hægt að grilla á pítsasteini eða í pítsaofni og er hún ólík New York ostakökunni að því leyti að ytra byrðið er örlítið brennt á meðan innra byrðið er mjúkt og allt að búðingskennt.

Uppskrift
700 g rjómaostur, við stofuhita
350 g sýrður rjómi, við stofuhita
300 g sykur
½ tsk. salt (má sleppa)
5 egg
2 tsk. hveiti

 

  • Smyrjið botninn á 20 cm formi og setjið bökunarpappír í það, passið að pappírinn nái a.m.k. 2 cm yfir brúnina á forminu. 
  • Setjið rjómaostinn í stóra skál eða matvinnsluvél og vinnið á lágum hraða uns hann er mjúkur. Blandið sýrða rjómanum vel saman við og síðan sykri og salti þar til allt er vel blandað saman. 
  • Hrærið eggin vel saman við blönduna, eitt í einu. 
  • Setjið hveitið í litla skál og hrærið með gaffli til að koma í veg fyrir kekki, bætið við einni skeið af deiginu og blandið vel saman. Hellið því næst hveitiblöndunni saman við deigið í stóru skálinni og hrærið öllu saman.  
  • Hellið deiginu í formið, slettið vel toppinn og látið því næst formið „detta“ nokkrum sinnum á borðið til að losna við allar loftbólur úr deiginu.
  • Bakið í 30 mínútur og fylgist síðan vel með henni eftir það (getur tekið um 45 mínútur). Ostakakan er tilbúin þegar toppurinn er dökkbrúnn og miðjan enn hlaupkennd. Kakan stífnar þegar hún kólnar. 
  • Takið kökuna af grillinu og leyfið henni að kólna áður en bökunarpappírinn er notaður til að lyfta henni upp úr forminu. 

 

Og hvað er svo hægt að drekka með ostakökunni?
Það eru ýmsir möguleikar fyrir hendi og eins og með allt annað sem við pörum saman, þá er það mikilvægasta að velja eitthvað sem manni finnst gott sjálfur.

Asti freyðivín
Freyðivínin frá Asti eru sæt og ávaxtarík en freyðingin lyftir pöruninni á annað stig. Það má einnig vel skoða rósafreyðivín af hvers kyns stíl.

Ávaxta- og kryddbjór, súrbjór, stout
Gott er að velja til dæmis kirsuberja eða hindberja ávaxtabjór en ávaxtabragðið bætir auka lagi af bragðeinkennum við ostakökuna. Súrbjórinn gæti einnig gengið hér vel upp þar sem sýran vegur vel á móti sætunni og fitunni í kökunni. Stout bjórar gætu líka verið skemmtilegir með sína ristuðu tóna, kaffi- og súkkulaðibragð, sérstaklega ef kakan er vel brennd að utanverðu. 

Sætvín
Hvítu sætvínin, eins og Sauternes eða Tokaji, með sínum flóknu bragðeinkennum ávaxta, marmelaðis, karamellu eða vanillu henta vel með ostakökunni. Einnig má skoða að velja hálfsætan Riesling, þar sem bæði sætleikinn og sýran henta vel fyrir pörun með ostaköku.

Sérrí
Svo má auðvitað ekki gleyma sérríinu sem er framleitt á Suður Spáni, en þar mætti helst nefna sætari stílana, eins og Cream eða Pale Cream. Sætan og alkóhólið ásamt bragðeinkennunum parast vel saman við ostakökuna.

          Njótið!

Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi