Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Hátíðarkalkúnn

Vinsældir kalkúns í hátíðarmatinn hafa aukist töluvert síðari ár og vonandi eru það fáir sem lenda í jafn þurrum kalkúni og  Griswold fjölskyldan í klassísku jólamyndinni Christmas vacation. Kalkúnninn einn og sér er tiltölulega hlutlaust, ljóst fuglakjöt og það er því hvernig hann er kryddaður og meðlætið sem býður upp á fjölbreytilegt ferðalag bragðs og áferðar. Hátíðarmaturinn er oft í saltari kantinum og fituríkur, sem hefur þau áhrif á vínið að það virðist ekki eins sýruríkt og tannískt. Því getur oft verið ágætt að velja vín sem eru sýrurík og með miðlungs til þétt tannín. Sæta í mat hefur hins vegar þau áhrif að vínið virðist sýrumeira og þurrara. 

Kalkúnn er oft kryddaður með ýmsum laufkryddum, hvítlauk og smjöri. Yfirleitt er meðlætið í sætari kantinum; fylling með sveskjum og hnetum, sætkartöflumús, sósa og salat með granateplum. Og hvaða vín á þá að velja með til að toppa máltíðina?  

Það eru nokkrir möguleikar fyrir hendi sem taka tillit til smekks hvers og eins. 

RAUÐVÍN
Fyrir þá sem kjósa rauðvín þá er gott að velja rauðvín í léttari og ávaxtaríkari kantinum. Tegundir eins og Pinot Noir, Crianza frá Rioja, Beaujolais, léttari vín frá Kaliforníu til dæmis úr Zinfandel þrúgunni og jafnvel Lambrusco henta vel.   

HVÍTVÍN
Riesling er sýruríkur og er hægt að fá bæði ósæta sem og sæta, til dæmis frá Alsace eða Þýskalandi. Chardonnay er einnig góður kostur og fer þá sérstaklega eftir smekk hvort valið er óeikað Chardonnay frá svölu vínræktarsvæði, eins og til dæmis Chablis, eða eikað Chardonnay frá heitara svæði með bragðeinkenni suðrænna ávaxta. Smásætur Pinot Gris frá Alsace gæti einnig hentað vel.  

FREYÐIVÍN
Freyðivín er einstaklega ánægjulegt að drekka með mat, en þau eru að öllu jöfnu frekar sýrurík og hægt er að velja á milli sætleika. Síðastliðin ár hefur mikil aukning orðið í framboði á rósafreyðivíni og myndi það tóna skemmtilega við kalkúnamáltíðina. Það fer svo eftir smekk hvers og eins hvort hann velji freyðivín framleidd eftir hefðbundinni aðferð, eins og til dæmis kampavín, crémant og cava, eða freyðivín framleidd með tankaðferð, eins og til dæmis Prosecco eða asti.  

 

Njótið vel og gleðilega hátíð! 

Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi