Hvítvín eru að öllu jöfnu borin fram kæld. Misjafnt er þó hversu köld þau eiga að vera og er þá gott að hafa ákveðin atriði í huga.
7-10°C - ung, fersk, ávaxtarík og krydduð vín. Hér er að öllu jöfnu verið að tala um vín í léttari og ferskari kantinum, eins og Pinot Grigio og Sauvignon Blanc.
10-13°C - eikuð, þroskuð og þyngri hvítvín. Bragðeinkenni þessara vína njóta sín betur þegar þau eru kæld en ekki köld.
Við kælingu dofna bragðeinkenni hvítvína og verður sýra vínsins þá meira áberandi. Það góða við of köld hvítvín er að þau hitna í glasinu með tímanum. Ef ísskápurinn er stilltur á 4°C, þá getur verið ágætt að taka flöskuna út úr kæli 30-60 mínútum fyrr fyrir köld vín og 60-90 mínútum fyrr fyrir kæld vín. Mikilvægt er að passa að flaskan standi ekki við hliðina á heitum tækjum eins og eldavél eða bakaraofni.
Ef kæla á hvítvín með hraði er hægt að skella þeim í jökulkalt klakabað og gæta þess að flaskan sé vel ofan í vatninu. Það er líka hægt að skella flöskunni í 20 mínútur í frystinn, bara ekki gleyma henni þar! Sem betur fer eru flestir farsímar nú til dags með tímastilli sem hægt er að setja í gang þegar flaskan er sett inn í frysti.