Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Veislur

Er veisla fram undan? Þá eru hér nokkur hagnýt ráð sem gott er að hafa í huga við skipulagningu á kaupum áfengis fyrir veislu.  

Flestir ákveða fyrst hvaða mat á að bjóða upp á og velja svo vínið með matnum. Fyrir suma er valið einfalt á meðan aðrir eru óákveðnari. Þá er gott að leita ráða hjá starfsfólki Vínbúðanna með valið og einnig er tilvalið að leita til Veisluvínsþjónustuna okkar sem staðsett er í Heiðrúnu, Stuðlahálsi 2. Hægt er að hafa samband í síma 560-7730, á netfanginu veisluvin@vinbudin.is, eða einfaldlega mæta á staðinn og fá ráðgjöf.  

Ávallt er gott að huga að þessum þætti tímanlega. Þá er einnig gott að hafa í huga  að fyrri part vikunnar er rólegra í búðunum. 

Veislureiknivél 
Áður en haldið er af stað í kaup á áfengi fyrir veisluna er ágætt að skoða veislureiknivélina okkar þar sem hægt er að reikna út magn áfengis eftir forsendum hverju sinni. Að vera tímanlega í skipulagningunni er alltaf kostur því þá gefst betra tækifæri til að panta það magn af þeim veigum sem verða fyrir fyrsta vali. 

Tegundir af áfengi 
Gott er að hafa í huga hvers kyns tegundir af áfengi standi til að bjóða upp á í veislunni; freyðivín, léttvín, bjór og /eða sterkt. Hér er einnig gott að hafa í huga hvort veislugestir sæki sér sjálfir drykki eða starfsfólk veislunnar sjái um að bera þá fram.  

Stærð og gerð umbúðanna skipta máli en til dæmis er oft hentugra að bjóða upp á minni einingar af bjór, þ.e. litlar flöskur eða dósir, til að minnka sóun. Smekksatriði er hvort bjóða eigi upp á léttvín í kössum eða flöskum, en hægt er að fá um fjórar flöskur úr hverjum kassa. Ég vil einnig benda á að hægt er að skoða lítraverðið á hillumiðanum og bera þannig saman verð á mismunandi einingum áfengis.  

Tegundir af veislum 
Brúðkaup standa oft yfir í lengri tíma, allt frá 5 klukkustundum og þangað til síðasti maður fer heim, sem getur verið misjafnlega seint. Í brúðkaupsveislum er oftast boðið upp á mat, jafnvel þríréttaða máltíð. Í fordrykk er oft boðið upp á freyðivín, léttvín með matnum og í sumum tilfellum er einnig boðið upp á bjór með eða á eftir mat. Í sumum veislum er einnig boðið upp á sterkt áfengi eftir máltíðina eða eftirréttarvín með eftirréttinum. Fyrir þá sem eru í brúðkaupshugleiðingum og vilja undirbúa veisluna sína vel mæli ég með þessari grein.

Afmæli/partý geta oft staðið lengi yfir, líkt og brúðkaupsveislurnar. Að öllu jöfnu er þó maturinn sem boðið er upp á í léttari kantinum, oftast nær einhvers konar pinnamatur eða smáréttir. Ef boðið er upp á sterka drykki er ágætt að hafa þá einfalda með færri innihaldsefnum og ef boðið er upp á bollu er gott að hafa nægilegt magn tilbúið til framreiðslu. Hér má finna uppskriftir að alls konar bollum

Útskriftir/opnanir eru tegundir af veislum sem oftast standa yfir í stuttan tíma, 2-3 klukkustundir. Þá fer að öllu jöfnu minna af áfengi og oft er boðið upp á færri tegundir, jafnvel bara eina; til dæmis einungis freyðivín, hvítvín eða bjór.  

Mikilvægt er að muna að tilefnið er að öllu jöfnu gleðilegt og því ómissandi að hafa gleðina með í undirbúningnum 


Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi