Þegar desember er genginn í garð og ljómi jólaljósanna lýsa upp húmið, þegar kuldinn virðist ná að lauma sér inn að beini þrátt fyrir marglaga yfirhafnir, þá getur verið gott að ylja sér á heitum bolla af bragðgóðum drykk.
Jólaglögg er jafnan það fyrsta sem kemur í hugann þegar hugsað er um jólahefðir og drykki. Í jólaglöggið fara bökunarkrydd sem gefa svo dásamlega lykt í húsið þegar það er hitað. Ekki er verra fyrir jólastemmningu nefsins að kassi af mandarínum sé dreginn upp.
Jólaglögg
1 flaska rauðvín
6 cl. vodka eða gin
5 negulnaglar
2 muldar kardimommur
2 kanilstangir
1-1½ dl. sykur
Börkurinn af ½ appelsínu er skorinn í fína strimla, passa þarf að skilja hvíta hlutann eftir.
Hitið upp vínið ásamt kryddinu og látið taka sig í nokkrar mínútur við góðan hita án þess þó að láta sjóða. Bætið síðan sykri og appelsínuberki út í og hrærið, haldið heitu í nokkrar mínútur í viðbót. Berið fram sjóðandi heitt með rúsínum og afhýddum möndlum.
Einnig er hægt að útbúa óáfenga jólaglögg, svo allir geti átt notalega stund með heitan drykk í bolla.
Heitt súkkulaði
Það jafnast ekkert á við almennilega lagað heitt súkkulaði með dökku súkkulaði, smjöri og rjóma. Fyrir þá fullorðnu hefur stundum tíðkast að setja út í örfáa dropa af sterku áfengi. Þá getur verið gott að samræma bragð súkkulaðis og því sem er að finna í áfenginu. Til dæmis er hægt að nota dökkt romm, sem oftar en ekki er bæði kryddað og með keim af karamellu. Líkjörar eru einnig tilvaldir og skiptir það þá bara smekkur hvers og eins hvaða bragði hann vill bæta út í. Möguleikarnir eru margir og má þar telja appelsínulíkjör, möndlu, mintu eða vanillu, svo eitthvað sé nefnt. Hafið bara í huga að líkjör er að öllu jöfnu frekar sætur og því gott að setja aðeins minna af sykri út í súkkulaðið og nota jafnvel súkkulaði í dekkri kantinum.
Púns
Í hvert skipti sem ég hugsa um púns hugsa ég um jólamyndina Christmas vacation og þegar Sparky og cousin Eddie fá sér eggjapúns í fallegum hreindýraglösum. Og hvað kemur manni í meira jólaskap en að hlæja, sitjandi fyrir framan sjónvarpið í jólapeysu og jólasokkum? Hér má nálgast uppskriftina af eggjapúnsinu hans Eddie.
Njótið vel!
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi