Gin er brenndur drykkur sem er kryddaður með einiberjum og ýmsum öðrum kryddjurtum.
Einiber eru vinsæl í krydd og lyf á norðlægum slóðum og vaxa þau einnig á Íslandi. Til að berin nái fullum þroska þarf árferðið að vera gott í tvö ár, berin verða græn á fyrra árinu, en á öðru ári taka þau svo á sig svarbláan lit þegar þau hafa náð fullum þroska.
Einiberjabrennivín hefur verið þekkt í yfir fjögur hundruð ár. Talið er að hollenskur lyfjafræðingur hafi byrjað á því að krydda spíra með einiberjum og kallað drykkinn Genievre, en það er franska heitið yfir einiber. Frá Holland berst svo drykkurinn til Englands með breskum hermönnum sem kölluðu hann „hollenska hugrekkið“, en sopi af séniver jók þeim hugrekki er þeir börðust með Hollendingum í hollensku uppreisninni. Það var svo Vilhjálmur af Óraníu sem bannaði innflutning á frönskum vörum og þar með talið koníaki. Hvatti hann einnig til eimingar á gini til að stemma stigu við smygli á koníaki. Síðan
þá hefur mikið gin runnið um kverkar niður mörgum til ánægju og heilsubótar og öfugt.
Hægt er að laga gin á fleiri en einn hátt. Einiber eru einu jurtirnar sem reglur kveða á um að þurfi að vera í gini, en önnur
krydd eru einnig notuð og má þar nefna hvönn, koríander, kúmen, appelsínu- og sítrónubörk og lakkrísrót.
Sú aðferð sem þykir gefa af sér besta ginið er að tvíeimaður kornspíri er eimaður í þriðja sinn og eru alkóhólgufurnar þá látnar leika um kryddjurtirnar á leiðinni um eimingartækin og taka í sig bragðeinkennin úr kryddjurtunum. Í þetta eru notaðir sérstakir gin eimkatlar sem eru með hólf fyrir kryddjurtirnar. Einn slíkur eimingarketill er til hér á landi og er hann sá eini í heiminum sem notaður er til að eima vodka. Önnur aðferð fer þannig fram að kryddjurtirnar eru látnar liggja í spíranum í nokkra daga og síðan er hann eimaður.
Yfirleitt er talað um London Dry Gin, en einnig er til Plymouth gin. London gin var upphaflega gert í og umhverfis London, en
hefur í dag enga landfræðilega þýðingu, heldur er átt við stílinn. Plymouth gin kemur hinsvegar frá Plymouth og eingöngu þaðan. Stíllinn er kröftugri, aðeins meiri einiberja- og rótarkeimur.
Gin átti miklum vinsældum að fagna og var eftirsótt í allskyns blöndur og kokteila löngu áður en vodkað náði yfirhöndinni um
1960. Í dag er gin þó farið að njóta meiri hylli aftur.
Gin er mikið notað í blöndur og margar eru heimsfrægar eins og til dæmis Dry Martini, Tom Collins, Singapore Sling, White Lady
svo eitthvað sé nefnt. Svo er náttúrulega Miðnes þekkt hér á landi.
Páll Sigurðsson, vínráðgjafi
Úr Vínblaðinu (3.tbl.7.árg)