Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Októberfest

Októberfest, sem haldin er síðustu 2 vikurnar í september til og með fyrstu helgina í október ár hvert, er stærsta þjóðhátíð Þjóðverja.  Þó að hátíðin eigi upptök sín í Theresienwiese í Munchen hafa önnur lönd tekið þessa hátíð opnum örmum og er hún því haldin um heim allan.
Í Þýskalandi mega einungis sex brugghús selja bjór sinn á hátíðinni og eru þau öll staðsett innan borgarmarka Munchen. Önnur brugghús fá einfaldlega ekki að taka þátt í herlegheitunum.

Eins og áður hefur komið fram á hátíðin upptök sín í Theresienwiese í Munchen og er einfaldlega kölluð Wiesn, sem þýðir tún eða engi, af heimamönnum.  Fyrsta októberhátíðin var haldin árið 1810 til að fagna brúðkaupi krónprinsins Lúðvíks frá Bavaria, sem síðar varð konungurinn Lúðvík I,  og prinsessunnar Teresu af Saxony-Hildburghausen. Hátíðin tókst vel og árið 1819 var ákveðið að Oktoberfest yrði að árlegum viðburði.  Fyrst um sinn voru kappreiðar helsta skemmtiatriði hátíðarinnar en seinna bættust við fleiri greinar ásamt hinum ýmsu skemmtiatriðum og veitti hátíðin, segir sagan, innblástur að Zappa-leikunum sem urðu árið 1896 að hinum nútíma Ólympíuleikum. Hátíðin hefur vaxið með hverju árinu og í dag eru um 6-7 milljón manna, að stórum hluta Þjóðverjar, sem sækja hátíðina ár hvert.

Bjórinn
Fyrstu 5 – 6  áratugina var það þýskur Dunkel sem bruggaður var fyrir hátíðina, þar sem dökkir bjórar voru vinsælir fyrir tíð hinna ljósu lager bjóra.  Seinna meir tók við sterkur Bock bjór og í áratugi réð Marzen bjórinn lögum og lofum og gerir í raun enn þann dag í dag.  Sá stíll hefur aðeins breyst gegnum tíðina og allur bjór sem bruggaður er fyrir hátíðina hefur verið gullinn á lit síðan um 1990.
Þessir bjórar hafa einkenni af sætkenndum, þéttum maltkarakter og humlatónum sem veita mótvægi á móti maltinu og eru flottir einir og sér, en passa auðvitað vel með pylsum, súrkáli og saltkringlum, grilluðum kjúklingi og svínakjöti.  Njótið!

 

Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi