Fram til ársins 1989 var bjór ólögleg vara á Íslandi! Þegar maður hugsar til baka skilur maður ekki alveg af hverju, sérstaklega þegar aðrir áfengir drykkir voru leyfilegir. Bjóráhugamenn eiga einnig erfitt með að skilja að það þurfti sautján ár til viðbótar þar til smærri ölgerðir fóru að birtast, en þær hafa nú þegar hrist talsvert upp í íslenskri bjórmenningu.
Smærri ölgerðir hafa á undanförnum árum orðið meira og meira áberandi á heimsvísu, og hefur orðið mikil vakning í svokölluðum míkró-bruggeríum, sem bjóða upp á fjölbreytt úrval bjóra, og oft eru bjórarnir eingöngu fáanlegir í grennd við ölgerðina.
Síðla árs 2006 opnaði Bruggsmiðjan á Árskógssandi og braut þar með blað í íslenskri bjórsögu, en framan af voru eingöngu stórar ölgerðir starfandi á Íslandi, með margfalda framleiðslugetu smærri bruggeríanna. Í byrjun árs 2008 birtist svo Ölvisholt brugghús og loks Mjöður í Stykkishólmi.
Bjórinn frá Bruggsmiðjunni heitir Kaldi og fylgir tékkneskum hefðum. Bjórarnir eru í stíl við Pilsner Urquell eða Budweiser Budwar, og eru bruggaðir þrír bjórar þar, ljós og millidökkur lagerbjór í Pilsnerstíl ásamt létt-lager auk jóla-, þorra- og páskabjóra.
Ölvisholt hefur fjölbreyttasta flóru bjóra, og virðist ekki hrætt við að fara ótroðnar slóðir, og hafa meðal annars notað íslenskar kryddjurtir til að bragðbæta bjórana. Skjálfti er elsta framleiðsluvaran og er lagerbjór í fremur bragðmiklum og blómlegum stíl. Móri er öl í enskum stíl, Lava er reyktur imperial stout, og Fósturlandsins Freyja er nýjasta viðbótin, hentug fyrir þá sem vilja léttan bjór sem skortir samt ekki karakter. Árstíðabjórarnir eru álíka villtir og „standard“-bjórarnir, og hafa verið vinsælir hjá ævintýragjörnum.
Mjöður í Stykkishólmi framleiðir bjór sem kallast Jökull, sem er mjög viðeigandi nafn. Bjórinn er fremur léttur lagerbjór í þýskum stíl. Nýlega bættist annar bjór við úrvalið og kallast hann Skriðjökull, en hann er eilítið dekkri og bragðmeiri en Jökull. Auk þess bjóða þeir upp á árstíðabjóra.
Tvö önnur nöfn hafa birst í hillum Vínbúðanna, en í báðum tilfellum framleiðir fyrirtækið ekki sjálft bjórinn, en það eru El Grillo, framleiddur af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni og Gullfoss sem Bruggsmiðjan framleiðir.
Þetta er fín viðbót við íslensku flóruna, en lengi má gott bæta, og finnst undirrituðum að fleiri mættu fara ótroðnar slóðir, í stað þess að aka í hjólförum stærri ölgerðanna, því frelsið og sveigjanleikinn er nú einu sinni styrkur smábruggería.
Magnús Traustason, Vínráðgjafi
Úr Vínblaðinu (3.tbl.7.árg)