Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Út að grilla

Nú þegar loks er farið að sjást til sólar fara mörg okkar að huga að grillinu. Sópað er á svölum og sólpöllum og grillið skrapað og pússað svo allt sé nú fínt fyrir fyrstu grillveislu sumarsins.  

Grillmatur getur auðvitað farið í allar áttir hvað varðar hráefni, en í grunninn hefur hann þetta reykta, léttbrennda bragð, í mismiklum mæli.  Það þýðir að þegar para á vín með grillmat þarf að hafa í huga þessa karamelíseringu sem á sér stað ásamt reyknum. Sósurnar og kryddin spila stórt hlutverk og sér í lagi þegar sætar BBQ sósur eru notaðar.

Hvítur fiskur og skelfiskur
Með hvítum fiski og skelfiski eru fersk og ávaxtarík vín í aðalhlutverki. Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi, Albarino og austurrísk Gruner Veltliner eða Riesling í þurrari kantinum eru öll skemmtilegir kostir. Norður-ítölsk Pinot Grigio og Txakolina frá Spáni vín væru einnig skotheld.

Bleikur fiskur
Lax eða bleikja opnar gáttina fyrir rauðvínsparanir. Pinot Noir er góð og klassísk pörun. Pinot Noir frá Bandaríkjunum eða Nýja-Sjálandi standa sig vel og Gamay frá Beaujolais er skemmtilegur kostur. Ef velja skal hvítvín er hægt að leiða hugann að vínum eins og Chardonnay frá Búrgúndí eða þurrum Alsace Pinot Gris, en rósavín eða rósafreyðivín eru einnig áhugaverðir kostir.

Kjúklingur og svínakjöt
Hvítvín með ríkulegan ávöxt og þau sem hafa komist í snertingu við eik geta staðið sig vel með grilluðum kjúklingi og svínakjöti. Chardonnay frá nýja heiminum eru vín sem henta vel ásamt eikuðum Rioja vínum.  Af rauðum vínum má nefna Pinot Noir frá gamla eða nýja heiminum, ásamt spænskum Garnacha en ef notast er við BBQ sósur má alveg skoða Primitivo frá Puglia á Suður-Ítalíu eða Zinfandel frá Bandaríkjunum. Einnig má skoða bæði rauðvín og hvítvín frá Suður-Frakklandi.

Rautt kjöt
Hér henta kröftug og ríkuleg rauðvín best.  Reserva eða Gran Reserva frá Rioja eða Ribera del Duero henta vel, sér í lagi með lambinu.  Frá Kaliforníu og Washington má finna vín sem henta mjög vel með bragðmeira kjöti og ekki má gleyma Chile og Argentínu.  Malbec frá Argentínu passa ákaflega vel við grillað rautt kjöt og einnig finnast frábær ítölsk vín eins og Bolgheri og Valpolicella Ripasso

 


Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi