Náttúruvín er hugtak og vísun í ákveðna hugmyndafræði víngerðarmanna sem á upptök sín í sveitum Frakklands, nánar tiltekið í Beaujolais héraði, upp úr 1960. Víngerðarmennirnir Marcel Lapierre, Jean Foillard, Charly Thevenet og Guy Breton vildu leita aftur til þeirra aðferða sem notast var við áður en síðari heimsstyrjöldin skall á. Náttúruleg, lífræn ræktun laus við alla tilbúna efnaáburði, skordýraeitur og aukaefni var þá við lýði og vildu “The Gang of Four”, eins og fjórmenningarnir voru kallaðir, hvetja til þeirra aðferða. Hægt og bítandi teygði þessi hugmyndafræði sig til fleiri héraða Frakklands og loks heimsins.
EN HVAÐ ERU NÁTTÚRUVÍN?
Það getur reynst þrautinni þyngri að svara þeirri spurningu en náttúrvín eru iðulega uppspretta skemmtilegra rökræðna um skilgreiningu þessa hugtaks. Þó engin lagaleg skilgreining sé til um náttúruvín eru samtök í löndum eins og Frakklandi, Ítalíu o.fl. sem setja sínar eigin reglur um hvað teljist til náttúruvína.
Öll eru þau að mestu leyti sammála um að þessi vín eigi að uppfylla ákveðin skilyrði:
- Þau þurfa að vera lífrænt eða bíódínamískt ræktuð.
- Þrúgur þurfa að vera handtýndar.
- Ekki má notast við aðkeypt, einangrað ger við gerjun, nema í sumum tilfellum freyðivína, þar sem notast má við hlutlaust aðkeypt/einangrað ger við seinni gerjun.
- Ekki má bæta við sýru, tanníni, sykri o.s.frv.
- Aðeins má bæta við mjög litlu magni af súlfíti, þannig að heildar súlfítmagn nemi ekki meira en 50-70 mg/L. (Margir framleiðendur bæta engu súlfíti út í vínin sín).
- Í flestum tilfellum gangast náttúruvín svo ekki undir síun eða fínun nema í litlu mæli.
Náttúruvín eru áhugaverð og skemmtileg vín sem í mörgum tilfellum bjóða upp á aðra bragðupplifun en “hefðbundin vín”. Slagorð margra náttúruvínsframleiðenda, “nothing added, nothing taken away” gefur svo til kynna að vínin geta verið mjög breytileg millli árganga. Er fjölbreytileikinn ekki einmitt það sem gerir lífið skemmtilegt?
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi