Árstíðabundnir bjórar hafa komið sterkari og sterkari inn undanfarin ár og hafa án vafa verið undanfari aukinna vinsælda á svokölluðu handverksöli eða handverksbjórum. Þessar vinsældir hafa brugghús landsins nýtt sér og er það mikið gleðiefni fyrir bjóráhugamenn sem geta nú beðið spenntir eftir því hvað brugghúsin bjóða upp á um páskana, á sumrin, í kringum októberfest, um jólin og á þorranum.
Nú er einmitt komið að þorrahátíð okkar Íslendinga og hefst sala á þorrabjór í Vínbúðunum 23. janúar. Fyrir marga er þorrabjórinn kærkomin tilbreyting frá jólabjórnum vikurnar á undan. Viðskiptavinir flykkjast í Vínbúðirnar til þess að versla bjór í stað blóma handa sínum heittelskaða á bóndadaginn og bjóráhugamenn bíða í röðum eftir því nýjasta og mest spennandi frá brugghúsunum.
Það skemmtilega þema sem virðist hafa myndast í kringum þorrabjórana er að framleiðendur eru kannski aðeins ævintýragjarnari en t.d. við framleiðslu jólabjóranna, þar sem ekki er farið út í neinar öfgar (þó eru vissulega undantekningar á því).
Öðruvísi stílar og flokkar, framandi hráefni og skemmtilegar tilraunir með eikarþroskun virðast normið, og tekst betur til með hverju árinu.
Ég hvet fólk til að kynna sér hvaða þorrabjórar verða í boði þetta árið, en í vörulistanum okkar má finna lista yfir þorrabjór sem er í sölu í ár og í hvaða Vínbúðum hann er fáanlegur.
Sumir vilja láta reyna á það hverjir þessara bjóra passa með skemmdum mat. Það er gott og blessað. Ég ætla að drekka þá eina og sér.
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi