Flestir sérfræðingar telja að bestu viskí veraldar komi frá Skotlandi, kannski réttilega, kannski ekki. Það eru þó að sjálfsögðu önnur lönd sem framleiða hágæða viskí eins og Japan, Bandaríkin, Ástralía, Ísland og Írland svo fá ein séu nefnd. En stöldrum aðeins við Írland. Írland hefur framleitt hágæðaviskí svo áratugum skiptir (og í raun lengur), en hefur kannski ekki þá ímynd á meðal almennings. Í augum margra eru þessi viskí einungis hentug til þess að búa til einn frægasta viskíkokteil heims, Irish Coffey. En þau eru svo miklu meira en það.
Sagan í örstuttu máli
Það voru írsk viskí sem voru vinsælust á heimsvísu á 19. öldinni og viskí Dyflinnar voru hæst metin. Hins vegar vegna ákveðinnar þrjósku stærstu framleiðandanna (þeir vildu ekki nýta sér nýja eimingartækni) leiddi það til þess að Skotar náðu sterkari markaðshlutdeild á heimsmarkaði ásamt því að heimsstyrjaldirnar tvær, borgarstríð og bönn á útflutningi til bresku nýlendanna máluðu gráu ofan á svart og eftir stóðu aðeins tvær eimingarstöðvar; ein í Norður-Írlandi og ein syðst á eynni.
Pot still viski
Hið klassíska írska viskí er svokallað pot still viskí. Þegar skattálagning á maltað bygg var orðin slík að framleiðendum þótti nóg um tóku þeir upp á því að bæta ómöltuðu byggi í kornblöndurnar sem síðar urðu að viskíi. Þessi ákvörðun gerði það að verkum að viskíin urðu vitaskuld ódýrari í framleiðslu en óvæntur ávinningur þessarar aðferðar var sá að viskíið tók á sig eilítið öðruvísi karakter. Afurðin varð kryddaðri, flóknari og olíukenndari í ilm og bragði og þótti heppnast gríðarlega vel. Eftirsóttustu viskí Íra eru einmitt þessi pot still viskí enn þann dag í dag.
Nýjar eimingarstöðvar
Þrátt fyrir að hafa einungis tvær eimingarstöðvar upp úr 1980 eru horfurnar góðar í dag. Nýjar verksmiðjur spretta upp eins og gorkúlur en í kringum tuttugu eimingarstöðvar eru starfræktar eins og er og hátt í tuttugu til viðbótar á leiðinni. Sala á írsku viskíi hefur aukist um 300 % á einum áratugi og áætlað er að salan tvöfaldist í nákominni framtíð. Óhætt er því að segja að spennandi tímar séu fram undan fyrir viskígerð á Írlandi.
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi