Hvað er íslenskara en ofnsteiktur hryggur eða lambalæri með grænum baunum, rauðkáli, kartöflum og rabarbarasultu? Ef einhver lambakjötsréttur nær því að vera klassískari þá væri það ef til vill kjötsúpan.
Vín sem henta með lambakjöti eru merkt sérstaklega á vef Vínbúðarinnar. Þar er að finna sérstakt tákn fyrir lamb: sem gefur til kynna að vínið passi einstaklega vel með lambakjöti. Á hverjum og einum tíma eru vel yfir fimmhundruð vín merkt með þessu tákni, þannig að úr nógu er að velja. Tillögurnar miðast í raun við að vínin hafi kraft til að hægt sé að njóta með lambasteik.
En hvað spilar inn í val á víni? Það er grundvallaratriði hvaða hráefni við notum hverju sinni. Kjöt er mis bragðmikið og lambakjöt er með því bragðmeira. Þar af leiðandi eru flest vín, sem merkt eru lambi í Vínbúðunum, rauð.
Það skiptir einnig máli hvernig kjötið er meðhöndlað. Soðið lambakjöt er til dæmis bragðminna en pönnusteikt lamb. Matreiðsluaðferðin sem slík hefur því áhrif á það hvaða vín passar best með viðkomandi kjöti og framreiðslu á því. Það skiptir miklu máli hvort lambið er soðið, grillað, steikt, ofnbakað, grafið eða reykt þegar velja skal vín með máltíð.
Íslenska lambakjötið er einstaklega bragðmikið og talið vera með því besta á heimsmarkaði. Lambinu er slátrað eftir sumardvöl á afrétti og er því ekki alið í húsum nema fyrstu vikurnar. Þar sem íslenska lambakjötið kemur ekki af skepnum sem eru aldar og fóðraðar innandyra eða í búrum má segja að það sé í raun villibráð. Íslenska sauðkindin er rekin á fjall á vorin þar sem hún dvelst ásamt lömbum sínum allt sumarið. Þar lifir kindin á lyngi, grasi og öðrum jurtum sem hún kemst í. Það er gróður sem var gjarnan notaður sem krydd hér áður fyrr og má því segja að skepnan hafi verið sjálfkrydduð. Við búum á lítilli eyju í Norður-Atlantshafi þar sem veður geta orðið válynd og sjórinn ýrist yfir landið og saltar þann gróður sem situr á yfirborðinu. Íslenska lambið er þannig alið á söltuðum kryddjurtum sem gefa því ljúffengt bragð. Það er því full ástæða til þess leiðbeina um val á vínum með lostætinu sem landið gefur af sér.