Lambapottréttir eru algengir í matarflóru margra heimshluta. Áður fyrr var kjöt í karrí til dæmis sígildur réttur á hverju íslensku heimili. Á Indlandi er þessi réttur vissulega mun bragðmeiri en uppskriftin sem gefin var í húsmæðraskólum hér á landi fyrir áratugum síðan. Þegar við erum með sterkan kryddaðan karrírétt, er tilvalið að nota sætt vín eða vín með afgerandi sætan ávöxt. Má þar nefna sætt Riesling frá Þýskalandi eða sætt rautt vín frá nýja heiminum, eins og þau léttari frá Ástralíu, Chile og Bandaríkjunum. Það er gott ráð að hafa alltaf í huga að því bragðmeiri sem pottrétturinn er því kraftmeira vín er við hæfi.
Chianti og tómatpottréttir eru frábært par. Sé mikill tómatur í réttinum þarf að huga að sýrunni í víninu. Þá er gott að geta leitað í vínin frá Toscana, þar sem hin súra þrúgutegund Sangiovese er allsráðandi. Það er fátt betra en gott Chianti með lambapottréttum sem byggjast á tómatgrunni og eru síðan kryddaðir með jurtakryddum eins og basilíku, óreganó og salvíu og bragðbættir með hvítlauk. Chianti og Chianti Classico eru einmitt vínin í þessa rétti. Tilvalið er að nota hluta úr lambinu eins og skankann til þess að matreiða í sýrunni frá tómötunum og auðvitað er alveg frábært að nota smá hluta af rauðvínsflöskunni í sjálfan réttinn. Þegar vín er notað í matseldina er ófrávíkjanleg regla að drekka sama vín með matnum.
Þegar við eldum lambakjötsrétti í norður-afrískum stíl er yfirleitt notað mikið af bragðmiklum kryddum í matreiðsluna. Með slíkum réttum henta vel vín frá Suður Frakklandi, Suður-Ítalíu og Monastrell vínin frá Spáni. Ef við erum hins vegar með rjómasósugrunn í pottréttinum þá getum við leitað á fleiri slóðir og þá eru rauðu vínin frá Bordeaux og Rioja algerlega frábær pörun.