Þegar á að grilla er best að velja feitari bitana af lambinu, því að þessi eldunaraðferð þurrkar upp fitulausa bita. Þá er ráðið annaðhvort að bera fitu á kjötið sem á að grilla, eða hafa vöðvann eða bitann nægjanlega feitan. Grillun fylgir ákveðinn reyktur keimur eða smá brunabragð af brenndri fitu. Kjötið verður bragðmeira af þessari matreiðslu en annarri, sérstaklega ef grillað er á kolum og oftar en ekki eru kryddlegnar grillsneiðar frekar bragðmiklar.
Kaldar sósur sem gjarnan eru notaðar með grilluðu lambi eru oft gerðar úr mjólkur- eða majónesgrunni. Með þessum brennda keim og feitum sósum er nauðsynlegt að finna sér gott vín. Þar koma þurr og sýrurík vín sterk inn og því leitum við aftur í klassísku Evrópuvínin ásamt þeim sýruríkari frá nýja heiminum. Þá er sérstaklega gott að prófa vín frá Argentínu. Þessi mikla grillþjóð hefur fundið það út að Malbec þrúgan er einstaklega hentug með góðri grillaðri steik.
Rétt er að hafa í huga að kryddun og marinering skiptir máli. Ef notað er mikið af sterku kryddi eins og eldpipar þá er gott að finna ávaxtaríkt og mjúkt vín frá heitustu framleiðslusvæðum veraldar, eins og Kaliforníu, Central Valley í Chile eða Suður-Ástralíu. Þessi vín gera sig best með sterkkrydduðum mat.
Ef BBQ-sósa er notuð þurfa vínin að vera kraftmikil og ávaxtarík. Sæta í víninu skemmir ekki fyrir og er þá rétt að leita sérstaklega eftir vínum sem eru merkt sæt eða millisæt á hillumiðanum í Vínbúðinni. Þar koma vín nýja heimsins sterk inn.