Umræða um umhverfismál verður sífellt háværari, sem betur fer. Sjálfbærni er hugtak sem margir hafa tileinkað sér, sumir til lengri tíma en aðrir styttri. Sjálfbærni getur verið flókið og víðfeðmt hugtak sem margir leggja mismunandi þýðingu í. Hægt væri að einfalda þýðinguna í það að við nýtum auðlindir okkar með þeim hætti að við göngum ekki á þær svo afkomendur okkar fái einnig að njóta þeirra.
Með sérhverju úrræði og aðgerð leggjum við lóð á vogarskálarnar og hver dropi skiptir máli. Vínframleiðendur eru margir hverjir mjög meðvitaðir um loftslagsbreytingar og umhverfismál því þessir þættir hafa mikil áhrif á þeirra lífsafkomu.
Til vínframleiðslu fer mikil orka, til dæmis í formi rafmagns, og vatnsnotkun getur verið gríðarleg, bæði til vökvunar og þrifa á tækjum og tólum í víngerðinni.
Í sjálfbærni hugsuninni skiptir ekki máli hversu lítið eða stórt fyrirtækið er, heldur er það viljinn til að bæta umhverfið og skila af sér til komandi kynslóða það sem telur. Lítil fyrirtæki hafa meiri möguleika á að innleiða breytt ferli á meðan stærri fyrirtæki hafa kannski meira fjármagn og mannauð til þess að skoða, breyta og fylgjast með framleiðslu sinni til meiri sjálfbærni.
Raforka
Við gerjun hækkar hitastig vökvans og þurfa framleiðendur að nýta tækni og aðstæður til að viðhalda hitastiginu á ákveðnu bili. Til þessa fer töluverð orkunotkun og skiptir þá máli hver orkugjafinn er og hversu mengandi hann er. Annað sem framleiðendur geta gert er að tína berin að nóttu til eða árla morguns. Þá eru þau kaldari og því þarf ekki að eyða eins mikilli orku í að viðhalda ákveðnu hitastigi. Uppruni raforku skiptir líka gríðarmiklu máli fyrir umbúðaframleiðslu.
Vatnsnotkun
Margir vínframleiðendur hafa sett sér það að markmiði að draga úr vatnsnotkun og endurnýta vatnið betur. Vatn getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir vínviðinn á heitum ræktunarsvæðum og skiptir þá miklu máli að hafa góða stjórn á vatnsnotkuninni þannig að sem minnst fari til spillis. Margir framleiðendur fylgjast daglega með veðurfari, hitastigi, rigningu og uppgufun og vökva aðeins eftir þörf vínviðarins. Sums staðar getur vatn verið af skornum skammti, eins og til dæmis í Kaliforníu, og annars staðar getur það hreinlega orðið uppurið eins og gerðist í apríl 2018 í Suður-Afríku. Einhverjir framleiðendur kjósa að vökva ekki og merkja sumir hverjir flöskurnar sínar þá dry-farming.
Hreinlæti í víngerðinni skiptir gríðarlega miklu máli, því minnsta örveruflóra sem ekki á að vera getur haft skaðleg áhrif á vínið og borið með sér fjárhagstjón fyrir framleiðandann sjálfan. Til að viðhalda hreinlæti skiptir vatn miklu máli en ekki síður vandvirk meðferð á notkun þess, sér í lagi á svæðum þar sem það er af skornum skammti.
Víngarður
Sjálfbær vínræktun er ekki endilega lífræn vínræktun þrátt fyrir að ýmsir þættir séu vissulega hluti af þeirri lífrænu. Þá skiptir miklu máli að líffræðilegur fjölbreytileiki sé til staðar og ná bændur því markmiði með því að rækta, eða leyfa, plöntum að vaxa á milli raða vínviða. Í stað skordýraeiturs eru notaðar ýmsar pöddur eða dýr sem éta þær pöddur sem eru óæskilegar í víngarðinum þar sem framleiðendur vilja ekki skaða umhverfið.
Umbúðir - flutningar
Kolefnissporið sem flutningar á víni skilur eftir sig er töluvert. Ýmsar aðgerðir og lausnir hafa litið dagsins ljós eftir vandaða útreikninga en það er einna helst umbúðaframleiðsla sem hefur mikil áhrif. Þar eru fyrirferðamest áhrif á öndun ólífrænna efna, eða svifryks, og svo hnattræn hlýnun. Glerflöskur vega hvað þyngst í þessum efnum. Léttari flöskur, léttgler, og magnflutningar á víni leiða til minna fótspors en flutningsmáti skiptir einnig miklu máli fyrir útreikninga. Á endanum skiptir val neytandans miklu máli og það er í þessu, sem annarri neyslu, að við getum haft áhrif á það með vali okkar á það hvernig varan er útbúin til neytenda. Hér á vef Vínbúðarinnar er nú hægt að sjá áætlað kolefnisspor á sumum vörum.
Úrgangur
Töluverður lífrænn úrgangur fellur til við vínframleiðslu, þá aðallega í formi þess sem við köllum hrat, það er hýði, stilkar, steinar og annað sem fellur til af berjunum. Sumir nýta þennan úrgang aftur út í víngarðinn sem áburð fyrir plönturnar. Sums staðar er úrgangurinn nýttur til að búa til lífrænt eldsneyti.
Samfélagið
Margir framleiðendur gæta ekki aðeins að afurðinni sem þeir framleiða heldur einnig að fólkinu sem leggur hendur á plóg til að fyrirtækin haldist gangandi. Samfélagsleg ábyrgð felst í heilbrigði starfsfólks, fræðslu og sanngjörnum launum fyrir þeirra vinnu. Sem dæmi má nefna að í Chile hafa einhver fyrirtæki einsett sér að bæta samfélagið allt og ná þannig ekki aðeins til starfsfólks síns, heldur einnig fjölskyldna þeirra og efla þar með einnig komandi kynslóðir. Gott starfsumhverfi leiðir frekar til hás starfsaldurs sem gerir það að verkum að öll sú reynsla sem starfsfólkið býr yfir skilar sér í betri framleiðslu og viðhald verðmætrar þekkingar, bæði í framleiðslu og ræktun.
Þetta eru aðeins nokkur atriði sem framleiðendur vinna að í víngerðinni hjá sér, sumir eru með víðtækari aðgerðir og með ágætis upplýsingar á vefsíðum sínum. Við hvetjum neytendur til að vera meðvitaðir um sjálfbærni í neyslu sinni og kynna sér hvað framleiðendur eru að gera.
Ýmis merki sem gefa til kynna sjálfbæra starfsemi má finna á vínflöskum, hér að neðan eru dæmi um nokkur þeirra.
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi