Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Mjöður

Mjöður eða hunangsvín, er að öllum líkindum elsti áfengi drykkur mannkynssögunnar en hann er hægt að rekja um 9.000 ár aftur í tímann til þorps í Kína, sem ber nafnið Jiahu. Þessi mjaðardrykkur var gerður úr geri, hrísgrjónum, hunangi og berjum. Drykkurinn hefur innihaldið lágan vínanda, en áfengur var hann engu að síður. 
Sum samfélög trúðu að miðir væru hið ágætasta fryggðarlyf og hið enska orð honeymoon er einmitt tilkomið vegna þessa. Hunangsmánuður, sem varð á endanum að honeymoon hjá enskumælandi þjóðum, táknar fyrstu vikurnar eftir brúðkaup þar sem í mánaðarlöngum brúðkaupsfögnuði var drukkinn mjöður til þess að tryggja heilbrigði og frjósemi brúðhjónanna. 

Það kemur kannski á óvart hversu fjölbreytta flóru hægt er að finna innan flokks mjaða en þeir geta t.d. verið kryddaðir eða ókryddaðir. Þeir geta innihaldið viðbættan ávöxt. Þeir geta verið sætir, ósætir og allt þar á milli. Þeir geta innihaldið háan vínanda eða lágan vínanda, geta verið eikarþroskaðir og eru stundum jafnvel framleiddir með korni.

Hér fyrir neðan koma nokkrir af helstu flokkum mjaða. 

Hefðbundnir (traditional) miðir – Gerðir úr vatni, geri og hunangi og geta spannað allan sætuskalann.  

Bochet – Þessir miðir eru gerðir með þeim hætti að hunangið er karamelíserað fyrir gerjun sem gefur af sér dekkri karakter eins og karamellu, súkkulaði o.s.frv.

Sack – Þessir miðir hafa mjög hátt hlutfall af hunangi og hægt er að hugsa um þennan flokk sem nokkurs konar eftirréttarmiði. Þeir eru yfirleitt þéttir og hafa hærra sykurhlutfall en hefðbundnir miðir og eru yfirleitt í kringum 14-18% abv.

Melomels – Þessum flokki tilheyra miðir sem eru bragðbættir með ávöxtum.

Metheglin – Hér má finna miði sem eru bragðbættir með kryddum á borð við kanil, negul og múskat.

Pyment – Miðir sem bætt er við vínberjum eða vínberjasafa.

Hippocras – Er í raun Pyment sem er kryddbættur.

Cyser – Mjöður sem gerður er með eplum eða eplasafa ásamt hunangi, vatni og geri.

Hydromel – Eins og nafnið gefur til kynna þá eru þetta miðir sem eru vatnsþynntir niður í allt að 3,5% abv en eru yfirleitt á bilinu 3,5-7,5% abv, vínandastyrkur getur þó verið hærri.

Braggott – Mjöður þar sem notast er við korn, oftast bygg, auk hunangsins.


Gísli Guðmundsson vínráðgjafi
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi