Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ostur og bjór

Vitað mál er að rétt vín parað með rétta ostinum getur verið hin ánægjulegasta upplifun en er bjór ekki bara betri valkostur?  Þó svo að allir bjórar passi kannski ekki við alla osta verður útkoman aldrei nærri eins slæm og þegar vín og ostapörun fer úrskeiðis.

Hví er þá bjór svona góð pörun við osta?


Kolsýra – Ef við hugsum um osta og hvaða eiginleika þeir hafa má segja að þeir séu mjög bragðmikil matartegund.  Bæði eru þeir bragðsterkir (þó það fari að sjálfsögðu eftir tegund, en við erum ekki að hugsa um samlokuostinn hér), þeir hafa nokkuð hátt fituinnihald ásamt því að vera saltir. Bjór með sína kolsýru hjálpar til við að hreinsa tunguna og gera okkur klár fyrir næsta bita.

Sæta – Þó svo að skynjun okkar á bjór sé ekki alltaf sú að hann sé sætur þá hefur hann einn kost umfram t.d. flest léttvín þegar það kemur að ostapörun en það er sú staðreynd að flestir bjórar hafa meiri sætu en við skynjum. Beiskja og jafnvel sýra í ákveðnum bjórtegundum standa sig vel í að draga úr sætuáhrifum sem finnast í bjórnum, en þessi sæta gerir það að verkum að bjórar passa ákaflega vel með seltunni sem finnst í ostum.

Sýra – Eitt af aðaleinkennum sumra bjórstíla er fremur hátt sýruinnihald. Þar má nefna bjóra eins og Gose, Berliner Weisse og Geuze.  Þessi sýra hjálpar til við að skera í gegnum fituna sem finnst í ostum.

Beiskja – Beiskjan í bjórnum vinnur vel með kolsýrunni til þess að vinna á fitunni í ostinum.

Fjölbreytni – Bjór er gríðarlega fjölbreytt vara, einfaldlega vegna fjölbreytileika innihaldsins.  Vissulega er bjór í grunninn aðeins gert úr fjórum hráefnum; korni, vatni, geri og humlum en hvernig útkoman verður fer eftir því hversu ristað kornið er, hvaða humlar eru notaðir, hversu mikið af þeim og hvenær í ferlinu þeir eru notaðir.  Einnig notast bruggarar við alls kyns krydd og bragðefni, eikarþroskun, mismunandi gerafbrigði, ávexti o.s.frv.  
 

Það sem hafa verður í huga við paranir er að osturinn má ekki yfirgnæfa bjórinn og öfugt.  Hins vegar er alltaf best að velja nokkra osta og nokkrar týpur af bjór og prufa sig áfram, það er aldrei að vita nema maður uppgötvi nýja og frábæra pörun.

 

Gísli Guðmundsson vínráðgjafi
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi