Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Freyðivín

,,Pop” - hljóðið sem á að heyrast þegar freyðivínsflaska er opnuð á að hljóma eins og hefðarfrú, ja eða hefðarmaður, að ropa. Hvernig svo sem það nú hljómar. Flestir tengja freyðivín við fögnuð og er óhætt að segja að þær séu ófáar freyðivínsflöskurnar sem ropa um áramótin. Því má þó ekki gleyma að freyðivín hentar frábærlega með ýmsum mat, en ekki aðeins til að skála í.

Um hátíðarnar er algengt að framreiddar séu þriggja rétta máltíðir. Forréttir og freyðivín stuðla ekki bara saman heldur parast einstaklega vel saman. Freyðivín hentar vel með fiskmeti, eins og t.d. laxi og skelfiski, hvort sem það er hrátt, eldað eða í súpu. Lambrusco er gott með parmaskinku, parmesan osti og balsamik ediki. Ferskur aspars, léttsteiktur á pönnu, með parmesan osti og smá salti er eitthvað sem gott freyðivín ræður vel við. Svo má nú ekki gleyma öllum ostunum.

Það er kannski erfiðara að para freyðivín með aðalréttinum en ef eitthvað er enn eftir í flöskunni þá er um að gera að prófa, því óhefðbundnar paranir uppgötvast ekki nema með tilraunum. Prófið til dæmis Asti með hangikjötinu. Með eftirréttunum má svo taka freyðivín í sætari kantinum, t.d. Asti eða semi-seco Cava.

Stundum er sætleiki freyðvína gefinn til kynna með ákveðnum orðum á flöskumiðanum. Til að átta sig á hvar á sætleika kvarðanum freyðivínið er þá eru hérna handhægar upplýsingar um skilgreiningu orðanna.  
 

  • Extra brut er með 6 grömm af sykri í líter, eða minna.
  • Brut getur verið með allt frá 6 grömmum og upp í 15 grömm í líter.
  • Dry (Sec/Trocken) er með 17 til 35 grömm í líter.
  • Medium dry (Demi-Sec/Halbtrocken/Semi seco), eða hálfsætt er með allt frá 33 grömmum og upp í 50 grömm af sykri í líter. 
  • Sweet (Doux/Suss/mild) trónir svo efst á skalanum og í þessum drykkjum eru grömmin af sykri í líter orðin 50 eða fleiri.

Lýsing á hillumiða gefur skýr merki um hvaða bragðeinkennum megi búast við í flösku af freyðivíni en bragðið má rekja til þrúgutegundarinnar og framleiðsluaðferðarinnar. Freyðivín er framleitt með mismunandi aðferðum sem allar leiða þó að ákveðnu takmarki: að búa til freyðandi vín. Þegar freyðivín er búið til er ófreyðandi hvítvín gerjað aftur. Freyðivín er sem sagt alltaf gerjað tvisvar, nema Asti sem er aðeins gerjað einu sinni. Það sem skiptir vínframleiðandann mestu máli er þó hvernig koltvísýringurinn er fangaður í flöskuna og hvernig bragð þeir vilja að einkenni freyðivínið.

Kampavínsaðferð – hefðbundin aðferð

Kampavín, Crémant og Cava eru dæmi um freyðivín sem eru framleidd með þessari aðferð. Grunnvínið sem notað er í framleiðsluna hefur að öllu jöfnu fínlegt bragð en það er þroskun freyðivínsins á gerinu í flösku sem gefur einkennaríkari bragðeinkenni og skiptir tíminn þar mestu máli. Bragðeinkenni sem koma frá gerinu eru til dæmis tertubotn, kex og ristað brauð. 

 

Yfirfærsluaðferð

Algengt er að meðaldýr vín í Nýja heiminum séu framleidd með þessum hætti. Freyðivín framleidd með yfirfærsluaðferðinni eiga um margt líkt með kampavínsaðferðinni og því má búast við svipuðum bragðeinkennum. Hluti framleiðsluferlisins er vélvæddur sem gerir það að verkum að framleiðslukostnaður verður lægri og vínin því mögulega ódýrari.  Oft og tíðum er hægt að sjá þennan mun á aðferðunum merktar á flöskunum; það er hvort freyðivínið sé tankgerjað, eða hvort það sé gerjað í þessari tilteknu flösku (Kampavínsaðferðin).  

Tankaðferð

Prosecco og Asti frá Ítalíu og þýskt Sekt eru meðal þeirra vína sem eru framleidd með tankaðferð. Þau vín sem eru framleidd með þessari aðferð er ætlað að neyta þegar þau eru ung. Þegar freyðivín eru framleidd með tankaðferðinni fer seinni gerjunin ekki fram í flösku, heldur í þrýstiheldum tanki. Freyðivínið getur fengið að liggja eitthvað með gerinu, en það fer þó eftir stíl vínsins. Freyðivín framleidd með þessum hætti miða frekar að því að viðhalda ferskleika og góðu ávaxtabragði, heldur en að öðlast þau bragðeinkenni sem fást með Kampavínsaðferðinni. 

Tilbúin kolsýra

Í vínum framleiddum með þessari aðferð er gasi sprautað inn í þrýstingstanka og þannig er vínið gert freyðandi. Þessari aðferð væri hægt að líkja við soda stream, en það er þó ekki hægt að mæla með því að fólk geri tilraunir heima. Ekki er algengt að freyðivín séu framleidd með þessari aðferð og eru það helst ódýrustu freyðivínin eru framleidd með slíkum hætti.

Njótið vel!
 

Berglind Helgadóttir

Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi