Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Náttúruvín

Vínheimurinn er gríðarstór og margt sem velkist um í honum sem nær ekki endilega á strendur þessarar eyju sem við köllum Ísland. Undanfarið hefur rekið á fjörur okkar nýjung, eða gömlung, sem kallast náttúruvín eða natural wine á ensku. Tilurð náttúruvína í þeim stíl sem við þekkjum í dag má rekja til Frakklands, nánar tiltekið til Beaujolais, upp úr 1960 þegar farið var að horfa til lífrænni framleiðsluaðferða. Á síðastliðnum áratugum hefur aukin þekking á vínframleiðslu, allt frá garði í flösku, haft ýmsar afleiður fyrir iðnaðinn, bæði góðar og slæmar. Aukin tækniþekking hefur meðal annars gert það að verkum að gæði vína hefur aukist og við lendum síður í þeim aðstæðum að drekka skemmt vín. Eins og með önnur matvæli, þá eiga vín það til að skemmast en með því að fylgja ákveðnum gæðastöðlum í framleiðsluferlinu og beita sértækri tækniþekkingu eru minni líkur á að það gerist. 
 
Á fyrri hluta þessarar aldar voru það svo framleiðendur í Loire sem blöskraði aðferðir og notkun á ýmsum efnum við vínframleiðslu og hrundu af stað nýrri bylgju náttúruvína sem varð nokkurs konar andsvar við massaframleiðslu vína sem sýndu engin upprunaeinkenni. Náttúruvínsframleiðendur er þó ekki aðeins að finna í Frakklandi heldur víðar um heiminn.
 
Þegar kafað er ofan í hlutina, kemur þó í ljós að ekki er hægt að fjalla um framleiðendur eins og svart á hvítu eða sem góða og vonda. Til þess er framleiðsluferli vína of flókið og víðtækt. 
 

Hvað er þá náttúruvín?

Samkvæmt The Oxford Companion to Wine er það sem einkennir náttúruvín eftirfarandi:
  • Framleitt af litlum, sjálfstæðum framleiðanda sem handtínir berin sín.
  • Berin eru oftar en ekki framleidd samkvæmt sjálfbærum, lífrænum eða bíódínamískum aðferðum. Sumir hverjir eru þó ekki endilega með vottun og margir framleiða sín vín utan AOC, eða upprunavottunar.
  • Aðeins er notað náttúrulegt ger, sem er til staðar á hýði þrúgnanna (þess vegna eru hvítvínin látin liggja með hýðinu og fá gjarna appelsínugulan blæ á sig – orange wine á ensku).
  • Engu er bætt við vínið (t.d. ekki næringu fyrir gerið, sýru eða tannín svo eitthvað sé nefnt), ekkert tekið úr því heldur (t.d. þegar einhverjir gallar hafa leynst í berjunum sem skilar sér í bragði).
  • Afar takmörkuð notkun á súlfíti eða það helst ekkert notað. 
Hafa ber í huga að ekki er hægt að alhæfa um einkenni náttúruvínsframleiðenda, þar sem engin reglugerð eða vottun liggur að baki framleiðslu náttúruvína og geta aðferðir því verið breytilegar milli framleiðenda.
 
Í grunninn snýst hugmyndafræði náttúruvína um að forðast alla efnafræðilega íhlutun í framleiðslu vínanna. Það þýðir til dæmis að vínið er ekkert síað og getur því farið á flöskur gruggugt. Grugginu mætti kannski líkja að einhverju leyti við aldinkjöt í appelsínusafa. Vínin, og augljóslegar hvítvínin, eru ekki eins tær eins og við erum vön að sjá þau í glasi. Þó er hver flaska einstök og blæbrigðamunur getur verið á sömu tegund. 
 
Eins og gefur að skilja er ekki mælt með því að geyma náttúruvín lengi eftir að þau eru keypt þar sem þau hafa ekki verið "stabíliseruð" (svipað eins og með ógerilsneyddu mjólkina) eins og flest önnur vín. Það skiptir líka gríðarmiklu máli að þau séu ávallt geymd við kjöraðstæður til að minnka líkur á að vínið í flöskunni sé skemmt þegar á að drekka það. Kjöraðstæður fela í sér jafnt hitastig, um 12-13 gráður, jafnt rakastig og dimman stað. Náttúruvín eru einnig viðkvæmari fyrir oxun og geymast því síður eftir að flaskan hefur verið opnuð.
 
Eru þau betri eða verri valkostur? Það hafa verið skrifaðar mýmargar greinar um kosti og galla náttúruvína, á endanum þarf hver og einn að dæma fyrir sig, en gott er að fagna fjölbreytileikanum.
 
Berglind Helgadóttir vínráðgjafi
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi