Chenin Blanc
Suður Afríka / Frakkland
Chenin Blanc er þrúga sem hægt er að framleiða ótrúlega marga mismunandi vínstíla úr. Hún er þekkt fyrir allt frá einstaklega langlífum sætvínum, sem framleidd eru í Loire dalnum í Frakklandi, til skerandi þurra og sýruríkra vína sem einnig eru framleidd þar. Einnig má framleiða úr þessari berjategund vín sem eru í margskonar stílum sem liggja þessara öfga á milli. Chenin Blanc er mest ræktaða hvíta þrúgan í Suður Afríku, hvar hún gengur oft undir nafninu Steen.
Furmint
Ungverjaland
Þrúgan Furmint vekur sífellt meiri áhuga vínáhugafólks. Hún gefur af sér hágæða hvítvín sem eru sýrurík og fersk. Þrúgan er upprunnin í Tokaji í Ungverjalandi og þar skilar hún einhverjum vönduðustu hvítu vínum landsins.
Arinto
Portúgal
Hvítar þrúgur sem hafa sýrurík einkenni eins og Arinto, ganga vel í hita eins og í suður Portúgal. Þessi hvítu vín hafa jafnvel möguleika á því að lifa einhver ár vegna hins háa sýrustigs, en vínin eru gjarnan með keim af sítrónum og ferskjum.
Grüner Veltliner
Austurríki
Grüner Veltliner er algeng í Austurríki þar sem úr henni eru framleidd létt hversdagsvín og allt upp í hágæða einnar ekru vín. Hún hefur einhverra hluta vegna náð miklum vinsældum hjá veitingahúsum og börum um allan heim, þar sem vínþjónarnir virðast hafa tekið þrúguna upp á sína arma. Vínin eru gjarnan fersk og oft má greina nettan keim af hvítum pipar í þeim.