Airen
Airen er mest ræktaða hvíta þrúgan á Spáni. Helsta ræktunarsvæðið þar er La Mancha og það er svo stórt að talað hefur verið um það sem stærsta svæði veraldar þar sem ein og sama þrúgan er í ræktun. Mjög stór hluti árlegrar uppskeru á Airen fer í að framleiða létt og einkennalítið hvítvín sem notað er til eimingar í hin frægu brandí kennd við Jerez.
Albarino
Þessi hvíta þrúga er sífellt að fá meiri athygli. Vínin eru talin einhver bestu hvítu vín Íberíuskagans. Albarino þrúgan er ræktuð bæði í Portúgal og á Spáni og er ræktunin mest á svæðunum nyrst í löndunum.
Verdejo
Verdejo er hvít þrúga sem sífellt er að bæta við sig fleiri fylgjendum og ræktendum á Spáni. Hún gefur af sér grösug, vönduð hvítvín sem hafa ferska sýru og áhugaverðan grænjaxlatón. Þessi vín hafa sífellt verið að seljast betur hér á landi undanfarin ár. Þau má geyma eitthvað á flöskunni og þroskast þar í að gefa frá sér möndlu- og hunangstóna.
Viura
Þrúgan Viura er uppistaðan í hvítum vínum Rioja á Norður Spáni. Þetta er þrúga sem líklega hefur borist til Rioja frá Katalóníu, en þegar komið er þaðan og yfir í Suður Frakkland kallast hún Macabeo. Viura vínin eru flest afar einföld og sítruskennd, en svo eru til dæmi þar sem þrúgan er látin þroskast á nýjum eikartunnum í blöndu með öðrum þrúgum, en þá skilar hún mun flóknari víni.