Á vef Vínbúðanna og í Vínbúðinni í Garðabæ eru léttvín skilgreind í flokka eftir karaktereinkennum, en þannig er auðvelt að finna rétta vínið eftir smekk hvers og eins.
Bragðflokkar eru þrír; létt, meðalfyllt og kröftugt/þétt. Sætleiki er flokkaður í ósætt, millisætt og sætt.
Vöruleitin á vef Vínbúðarinnar er frábært hjálpartæki þegar maður vill finna vín með einhverjum tilteknum mat eða fyrir samkvæmið, já eða bara til að finna eitthvað gott til að sötra.
Forréttir: Hvítvín eða freyðivín henta einna best með forréttum. Valið getur þá verið létt eða meðalfyllt hvítvín, ósætt til millisætt, allt eftir því hver forrétturinn er.
Með humri eða sjávarréttasúpu hentar ósætt freyðivín mjög vel. Fyrir þá sem ekki vilja freyðivín henta létt til meðalfyllt og ósæt Sauvignon blanc, Riesling og Chardonnay.
Með grilluðum humri er ósætt freyðivín frábært. Einnig ósæt og meðalfyllt, jafnvel þétt, hvítvín. Chardonnay, Chablis smellpassa, ósætur Riesling og Sauvignon Blanc líka, allt eftir meðlæti og eldunar aðferð.
Reyktur og grafinn lax er vinsæll forréttur. Ósætur eða hálfsætur Riesling virkar vel. Með reykta laxinum kemur eikaður Chardonnay verulega á óvart. Fyrir þá sem eru hrifnir af Sauvignon Blanc er það einnig áhugaverður kostur.
Með ljósu fuglakjöti og grísakjöti er bæði hægt að velja hvítt eða rautt, í bragðflokkunum létt eða meðalfyllt.
Kalkúnn eða veislukjúklingur sómir sér vel með bæði hvítu og rauðu. Chardonnay (helst eikað), Pinot Gris frá Alsace, þurr Riesling frá Alsace eða Chile. Ripasso frá Ítalíu eða vín í þeim stíl.
Með aliönd má prófa Cotes du Rhone, Ripasso, Rioja Reserva. Þurr, jafnvel hálfþurr, Riesling og Pinot Gris frá Alsace.
Purusteik tilheyrir á þessum árstíma, með henni má velja Reserva rauðvín frá Spáni, Chile Pinot Noir, Primitivo eða Valpolicella frá Ítalíu. Þurran Riesling frá Alsace, Þýskalandi eða Chile.
Með hamborgarhrygg virka bæði hvít og rauð vín. Pinot Gris og þurr eða hálfsætur Riesling. Pinot Noir frá Nýja heiminum og svo vil ég benda á vinsæl rauðvín frá Ítalíu, svokölluð Appassimento. Crianza rauðvín frá Rioja hafa verið vinsæl með hamborgarhryggnum.
Rautt kjöt
Lambakjöt er einstaklega vínvænt og laðar oftast fram það besta í víninu. Rautt Bordeaux og lambakjöt fellur hvort að öðru eins og flís við rass. Rioja og reyndar flest spænsk vín eru einnig á heimavelli hér. Vín úr Cabernet Sauvignon henta mjög vel. Rauðvín frá Toscana og Veneto eiga einnig vel við lambið.
Nautakjöt tekur vel á móti kröftugum rauðvínum. Bordeaux rauðvín og Chianti Classico eru frábær með nautasteik. Cabernet Sauvignon og Shiraz frá nýja heiminum og vín frá Rónardalnum henta einnig með nautakjöti, reyndar er um svo marga góða kosti að ræða að erfitt er að telja allt upp.
Villibráð er magurt kjöt og því ætti að varast vín með mikil eða þurrkandi tannín, því vínið virkar stamara og kjötið þurrara. Vínið má vera bragðmikið en fer þó eftir með hvaða villibráð það á að vera; bragðmeiri bráð, bragðmeira vín. Það er til mikilla bóta hafi vínið náð nokkrum þroska, eins er kostur að ávöxturinn komi vel fram í víninu.
Rjúpa er bragðmesta íslenska villibráðin, með dökkt kjöt og kröftugt villi- og lyngbragð. Öflugt shiraz frá Ástralíu kemur fyrst upp í hugann, en bragðmikið Ribera del Duero eða Rioja ráða einnig við rjúpuna. Hermitage ætti einnig að standa sig vel. Kröftugur Malbec frá Argentínu.
Villigæs er bragðmikil og ætti að falla vel með kröftugu Shiraz frá Ástralíu. Rioja Gran Reserva og Reserva virka líka vel. Vín frá Chile þar sem Carmenére leikur stórt hlutverk, bæði ein sér og blönduð með öðrum þrúgum, hafa sannað sig með villigæs.
Hreindýr er lúxusmatur, því ætti að vera í lagi að hafa vín í hærri verðflokki. Hermitage, sem er Syrah (Shiraz) frá Norður Rhone, eru ekki eins öflug og þau áströlsku, en hafa sjarma og fínleika sem hæfir hreindýrinu. Chianti Classico passar líka vel með. Ástralskt Shiraz er vel í stakk búið fyrir hreindýr, það hefur ávöxtinn og fyllinguna og oftast sætkenndan keim sem spillir ekki fyrir. Chateaux vín frá Bordeaux koma sterklega til greina og ekki má gleyma Cabernet Sauvignon frá nýja heiminum.
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi