Það er ýmislegt sem boðar komu jólanna í hugum Íslendinga. Auglýsingar fyrir jólatónleika hljóma snemma í víðtækjum landsmanna og sendir hlýja strauma í gegnum líkama sannra jólaunnenda. Aðrir bíða eftir því að sjá IKEA geitina standa í ljósum logum áður en þeir leyfa sér að hugsa til jólanna. Þó er einn atburður sem stendur öðrum framar hjá mörgum. Ég er að sjálfsögðu að tala um komu jólabjórsins í hillur Vínbúðanna.
Uppruni hefðarinnar á sér langa sögu. Skandinavar geta sennilega státað sig einna mest af þessari hefð. Hákon Noregskonungur setti lög þess efnis að hvert heimili þyrfti að brugga sérstakan jólabjór. Lögin voru síðar meir styrkt með sektarákvæðum ef heimilin uppfylltu ekki þessa skyldu sína. Svíar og Danir voru einnig duglegir við að brugga jólabjór og er talið að Svíar hafi verið með þeim fyrstu til að koma með hefðina til Norður-Ameríku á 17. öld. Bretar og Belgar eiga líka langa sögu hvað framleiðslu jólabjórs varðar.
Hvað er það samt sem gerir bjór að jólabjór? Nefna má tvo þætti sem hafa löngum einkennt hann. Í fyrsta lagi er notað meira magn af ristuðu malti í bjórgerðina sem gerir bjórinn dekkri en hinn hefðbundna ljósa lagerbjór. Einnig eru jólabjórar oftast með ívið hærra alkóhólmagn heldur en aðrir bjórar. Á síðari tímum hafa þessir bjórar orðið mun fjölbreyttari og má nú finna jólabjór í nánast hvaða bjórstíl sem er.
Nútímasaga jólabjórs á Íslandi er eins og gefur að skilja fremur stutt. Hún hefur hins vegar tekið miklum breytingum á mjög stuttum tíma. Í elstu fréttinni á heimasíðu Vínbúðanna sem snýr að jólabjór, frá árinu 2003, kemur fram að heilar 8 tegundir af jólabjór séu í sölu það árið. Núna 14 árum síðar eru næstum 50 tegundir á boðstólum. Þessar tegundir eru af öllum stærðum og gerðum. Þar má finna hefðbundna lagerbjóra, dekkri bjóra í klassískum jólabjórsstíl, India pale ale, porter, gose, bock, barley wine, saison og fleira. Meira að segja er einn jólasíder í boði. Það er því ljóst að enginn bjóráhugamaður er að fara að koma að tómum kofanum þetta árið.
Auðvelt er að finna sér bjór fyrir hvert tilefni. Skiptir engu þó fólk vilji sötra á sætkenndum bock með hangikjötinu, fá sér kraftmikinn porter með steikinni eða bara halla sér aftur í sófanum yfir jólasjónvarpsdagskránni og njóta jólabjórsins í ró og næði.
Við starfsmenn Vínbúðanna vonum að landsmenn njóti þeirra jólabjóra sem í boði eru í þetta sinn en gangi jafnframt hægt um gleðinnar dyr.
Gleðilega hátíð!
Pétur Fannberg Víglundsson
vínráðgjafi