Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Sake

Sake er líklegast einn þekktasti áfengi drykkur Japans, þó Japanir hafi reyndar getið sér góðs orðs fyrir viskíframleiðslu síðastliðin ár. Sake á sér langa sögu í Japan sem áfengur drykkur en er tiltölulega nýr fyrir okkur, þessa eyjaþjóð í Norður-Atlantshafi.


Sake er gert úr hrísgrjónum, Koji (tegund af myglu) og vatni. Til að útskýra í stuttu og einföldu máli hvernig Sake er bruggað þá hefst ferlið á því að hrísgrjón eru pússuð, skoluð og gufusoðin. Yfir hluta hrísgrjónanna er sáldrað, eftir kúnstarinnar reglum, Koji myglu í þar til gerðu einangruðu herbergi. Að því loknu tekur við ferli þar sem hreinum hrísgrjónum er blandað saman við Koji hrísgrjón og hefst þá gerjunin. Að endingu er safinn hreinsaður og honum tappað á flöskur. 


Til eru ólíkir stílar Sake, allt eftir því hversu mikið hrísgrjónin eru pússuð, hvort Sake-ið sé styrkt og hvort einhverjum bragðbætum sé bætt út í. Þá eru líka til skýjuð Sake. Höfuðbragðeinkenni Sake sækir í grunnhráefni þess, hrísgrjón, en bruggaðferðin og annað hráefni leiðir bragðlaukana í ívið flóknara ferðalag, allt frá hrísgrjónum til mjólkurafurða, s.s. osts, og þaðan yfir í sætari bragðeinkenni hunangs, sykurreirs, kandífloss og ýmissa ávaxtaeinkenna. 


Það skiptir máli við hvaða hitastig Sake er borið fram því hitastigið dregur fram bragðeinkenni. Flest Sake bragðast best kæld, 8-15°C, á meðan hægt er að dreypa á öðrum við hærra hitastig, 15-25°C, og allt upp í 40-55°C. Það getur því verið gott að taka Sake-ið úr kæli nokkru áður en á að neyta þess og fylgjast svo með bragðinu breytast eftir því sem stofuhitinn velgir það. Ef hita á sake er best að umhella því í ílát sem þolir hita og velgja það svo í vatnsbaði. Best er að forðast allar snöggar hitabreytingar, hvort sem þær eru hitun eða kæling.


Sake er oft og tíðum borið fram í Tokkuri (sjá mynd) og hellt í Choko. En vissulega er hægt að bera fram Sake-ið í flöskunni sem það er selt í. Best er að nota lítið glas eða bolla til að bera fram fyrir gesti. Og ef á að hella í glösin á japanska vísu, þá er það þannig að gestgjafinn byrjar á að hella í glös fyrir gestina en það er svo einn af gestunum sem sér til þess að gestgjafinn fái í sitt glas. Þegar allir eru komnir með Sake í glösin á svo að setja aðra höndina um glasið en hina undir það og dreypa á veigunum. Sake á að drekkast hægt og njóta hvers sopa. 

Sake
Sake hentar vissulega vel með sushi og öðrum japönskum réttum en það er einnig hægt að dreypa á því með kínverskum mat, núðlum og réttum sem innihalda sveppi. Það er ekki síðra eitt og sér. Þannig er til dæmis hægt að fá sér ískalt Sake með ferskjubragði (í Japan fær ferskjusteinninn oft að kúra í glasinu), litsí, jarðarberjum, melónu, plómu, greip, sítrus og lengi mætti telja hin ýmsu ávaxtabragðeinkenni.  Í sumum Sake-um kítlar freyðingin aðeins munninn. Svo er líka hægt að leita að kokteiluppskriftum á netinu og framkvæma tilraunir. 


Þegar neyta á Sake er tilvalið að deila flösku, eða flöskum, í góðra vina hópi og nýta tækifærið til að smakka ólíkar tegundir þess og með ýmsum bragðtegundum.  
Kampai! (Skál!)

Berglind Helgadóttir vínráðgjafi
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi