Ég var að gæða mér á grillaðri hörpuskel um daginn og fór að velta fyrir mér heitinu á þessu lindýri. Á mörgum tungumálum er góðgætið kennt við heilagan Jakob, þann sama og Jakobsvegurinn er kenndur við. Pílagrímar og aðrir fara þennan veg sem liggur um Spán frá austri til vesturs. Flestir fara þá leið, þó vissulega sé hægt að fara frá vestri til austurs, en það hlýtur að vera erfiðara því maður hefur væntanlega alla á móti sér.
Það sem vakti þó áhuga minn var að vegurinn liggur um nokkur þekktustu vínræktarhéruð landsins. Við upphaf hans er Pamplona höfuðborg Navarra, sem er helst fræg fyrir nautahlaupin, þar sem menn hlaupa um götur á undan nautum sem sleppt hefur verið lausum. Þessi aldagamla hefð varð fræg um heim allan eftir að bókin The Sun Also Rises ( Og sólin kemur upp ) eftir Hemingway kom út.
Frá Navarra koma mjög frambærileg rauð-, rósa-, og hvítvín sem eru að vísu ekki eins þekkt og vínin frá nágrannanum Rioja. Nokkur vín frá Navarra eru til sölu í Vínbúðunum og að mínu mati eru þau fyllilega á pari við allmörg Rioja vín. Tvö vín frá Navarra í Vínbúðunum eru með Pago vottun sem er hæsta gæða og upprunavottun á Spáni. Navarra er annað svæðið sem hlýtur þessa votttun. Þetta eru búgarðavín. Aðeins er leyfilegt að nota þrúgur af landareigninni, vínframleiðsla og þroskun verður einnig að fara fram þar. Einnig má nefna að Navarra er ekki síður þekkt fyrir apsas og papriku framleiðslu, sem þykir bera af að gæðum.
Rauðvínin frá Rioja njóta mikilla vinsælda, kannski ekki svo skrítið þar sem vínin henta mjög vel íslenskum matarhefðum. Saga nútíma víngerðar í Rioja hefst 1850 þegar tveir landeigendur, sem báðir höfðu lært víngerð í Bordeaux, komu með tæki, tól og þekkingu til Rioja. Það tók þá nokkurn tíma að sannfæra aðra víngerðarmenn um að þetta væri framtíðin. Sveitungar þeirra voru þó ekki sammála þeim og töldu þetta óþarflega dýra aðferð við víngerð. En peningar eru gulrót. Þegar í ljós komu miklar tekjur af útflutningi á rauðvíni, kom annað hljóð í strokkinn; ja því ekki að reyna? Þar með má segja að rauðvínin frá Rioja eins og við þekkjum þau í dag hafi verið komin til að vera.
Flöskumiða merkingar á vínum frá Spáni eru frábrugðnar því sem gerist í öðrum löndum. Á flöskumiðanum má sjá orð eins og Crianza og Reserva sem gefa til kynna hve lengi vínið hefur verið þroskað á tunnum og í flösku áður en það fer á markað.
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi