Prosecco
Prosecco er framleitt með tankaðferðinni en sú aðferð miðar að því að vínið sé ferskt og ávaxtaríkt þegar það er borið fram. Vínið er að öllu jöfnu ósætt en ávaxtaríkt og er talið henta vel í ýmsar gerðir kokteila, þar sem sætan yfirkeyrist ekki. Prosecco er gert úr þrúgunni Glera.
Kampavín
Allt kampavín er freyðivín en ekki er allt freyðivín kampavín. Kampavín kemur aðeins frá Kampavínshéraðinu og er framleitt með ákveðinni aðferð sem kölluð er kampavínsaðferðin, eða hefðbundna aðferðin. Kampavín getur verið mismunandi að sætleika, þó flest þeirra séu jafnan með lítið magn sykurs. Kampavínin bera gjarnan bragðeinkenni gersins, sem vínið er látið liggja í, sem leiðir bragðlaukana að ristuðu brauði og tertubotni. Þegar einstaklega góðir árgangar eru í Kampavínshéraðinu fer gjarnan besti hluti framleiðslunnar í árganga kampavín, sem oft er geymt á flöskum til nokkurra ára áður en gerið er tekið af og endanlegur korkur settur í. Kampavín er oftast gert úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Noir og Pinot Meunier. Þegar kampavín er gert aðeins úr Chardonnay stendur blanc de blancs á miðanum, en þegar rauðvínsþrúgurnar Pinot Noir og Pinot Meunier eru notaðar stendur blanc de noirs.
Cava
Mest allt, þó ekki alveg allt, Cava er framleitt í Katalóníu á Spáni. Cava er aðallega gert úr þrúgunum Xarello, Parellada og Macabeo, en fleiri þrúgur eru einnig leyfðar. Cava er framleitt með kampavínsaðferðinni og hefur því bragðeinkenni af ristuðu brauði. Þegar verið er að ná gerinu úr víninu eru notaðar gyrópallettur til að snúa flöskunum. Cava getur verið ósætt og allt upp í hálfsætt.
Asti
Asti er lítið þorp og svæði innan Piemonte í norð vestur Ítalíu. Asti, sem og Moscato d‘Asti, eru bæði framleidd úr Moscato Bianco þrúgunni með tankaðferðinni. Freyðivínin eru fersk og ávaxtarík, oftast í sætari kantinum og er víninu átappað á flöskur stuttu áður en það fer á markað. Það á að drekkast ungt og ferskt. Þau eru yfirleitt lág í alkóhóli.
Crémant
Crémant eru freyðivín framleidd með kampavínsaðferðinni, en koma frá öðrum héruðum Frakklands. Þannig er hægt að finna Crémant de Bourgogne, Crémant d‘Alsace og Crémant de Loire. Allar þrúgur sem eru ræktaðar í Bourgogne má nota í freyðivín framleidd þar, frá Alsace eru þau gerð úr Riesling og Pinot Gris, Pinot Blanc og Pinot Noir og frá Loire er það Chenin Blanc sem er ríkjandi. Vínin þykja ákjósanlegur kostur í stað kampavíns.
Annað
Vín frá Nýja heiminum svokallaða, þ.e. löndum fyrir utan Evrópu, notast svo við þessa ólíku framleiðslustíla. Unnið er með samspil grunnvíns, gers og framleiðslutíma til að ná fram ólíkum einkennum. Skiptir þá helst máli hvort verið sé að sækjast eftir flóknari bragðeinkennum, ferskleika, hvort vínið sé ávaxtaríkt, sætt eða ósætt.
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi