Þegar fólk hugsar um freyðivín, hugsar það langoftast um vín til að skála í; fagna. En freyðivín eru einnig ágætis matarvín og henta ólíkir stílar ólíkum réttum. Þannig er hægt að byrja á því að fagna góðri máltíð og halda svo áfram með sama vínið með matnum.
Forréttur
Súpur:
Ósæt til millisæt freyðivín henta einstaklega vel með rjómalöguðum súpum, þá sér í lagi úr sjávarfangi eins og humri. Ósætt freyðivín með ferskri sýru spilar, ásamt koltvísýringnum, einstaklega vel saman við fituna í rjómanum og bragðið af skel, t.d. af humri eða rækju. Hér gætu bæði Kampavín, ósætt Cava, Crémant eða ferskur og ávaxtaríkur Prosecco gengið upp.
Salat:
Freyðivín henta vel með salati af ýmsum tegundum og er þá helst að hafa vínið ósætt til millisætt. Ekki skemmir fyrir að hafa sjávarfang eins og t.d. humar, tígrisrækju, hörpuskel eða krabbakjöt.
Aðrir réttir:
Með eggjaköku getur ósætt til millisætt freyðivín runnið ljúflega niður. Með sterkum réttum er gott að bera fram millisætt til sætt freyðivín, eins og t.d. Asti.
Aðalréttur
Kjúklingur:
Með kjúklingi í rjómasósu gildir það sama og með rjómalöguðu súpuna; ósætt og ferskt freyðvín. Með grilluðum kjúklingi er gott að hafa ósætt til millisætt freyðivín, en ef farið er hamförum í sterku deildinni getur verið ágætt að hafa millisætt til sætt freyðivín með, til að slá á hitann í kryddinu.
Fiskur:
Grillaður lax hentar best með Kampavíni, Crémant, Cava eða öðru víni gert með hefðbundnu aðferðinni. Ósætt eða millisætt freyðivín, eins og t.d. Cava eða Prosecco, fer líka vel með fjölbreyttu bragði sushi.
Svo má líka slá öllu upp í kæruleysi og prófa að taka freyðivín með nautasteikinni, hvort heldur hún sé af kálfi eða eldra nauti.
Eftirréttur
Með ljósum eftirréttum, eins og crème brulèe, ostaköku, makkarónum o.s.frv. henta millisæt til sæt freyðivín afskaplega vel, eins og til dæmis Asti. En Asti gengur ekki aðeins með eftirréttum, eða öðru sætmeti, heldur parast það einkar skemmtilega með hangikjöti. Fyrir næstu jól er því um að gera að ná sér í eina flösku og prófa.
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi