Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Litbrigði rósavíns

Rósavín er ekki bara bleikur drykkur í glasi. Til eru ýmsar gerðir rósavína og geta þau verið jafn ólík og þau eru mörg, rétt eins og hvít- og rauðvínin. Litrófið spannar allt frá jarðarberjableikum til laxableiks og yfir í múrsteinsbleikan. Styrkleiki litarins ræðst af framleiðsluaðferðinni; það er að segja hversu lengi vínið var með hýðinu og er styrkleikinn þá allt frá ljósum og yfir í dökkrauðan blæ. 

Rósavín er líka mis sætt, White Zinfandel er t.d. nánast alltaf sætt á meðan vín úr Tempranillo þrúgunni er eiginlega alltaf þurrt. Eins er hægt að finna rósavín með freyðingu. Svo er auðvitað smekksatriði hvað fólki finnst best og eins hvernig vínið er drukkið, til dæmis með mat eða eitt og sér.

Líkt og með rauð- og hvítvínin gefa ólíkar þrúgur af sér ólík bragðeinkenni í rósavínum. Algeng bragðeinkenni rósavína eru rauð ber (svo sem jarðarber, hindber og trönuber) ýmis blómaeinkenni (t.d. rósablöð), ferskja og melóna.

Algengar þrúgur í rósavínum eru:

Zinfandel (oftast kölluð White Zinfandel þegar það er rósavín) eru jafnan millisæt og ávaxtarík. Bragðeinkennin eru jarðarber, sælgætiskenndur ávöxtur, melóna og jafnvel örlitlir sítrustónar. Það er fínt vel kælt eitt og sér en getur líka gengið upp með sterkum mat.

Grenache rósavín eru ávaxtarík, með bragðeinkenni þroskaðra jarðarberja, appelsínu, blómabragðeinkenni og jafnvel með kryddtóna. Gott er að bera þau fram kæld með grænkrydduðum mat (dill, oreganó, o.fl.). 

Syrah rósavín eru yfirleitt nokkuð kraft- og bragðmikil á rósavínsskalanum. Þau eru oft með dýpri rauðari lit og má finna bragð af hvítum pipar, grænni ólífu, jarðarberjum, kirsuberjum og ferskjum. Best er að bera þau fram rétt um eða yfir 5° C, en þannig nýtur bragðið sín betur. Rósavín úr Syrah þrúgunni gætu gengið vel upp með pepperóní pizzu. 

Cabernet Sauvignon tilheyrir bragðmiklum rósavínum. Þau hafa einkenni rauðvíns gert úr sömu þrúgu; sólber, græn paprika, kirsuber og krydd. Rósavín úr Cabernet Sauvignon henta vel með til dæmis grillmat og gott er að taka þau úr kæli aðeins áður en þeirra er neytt.

Pinot Noir rósavín eru fínlega ávaxtarík og fersk; í þeim má finna hindber, jarðaber, vatnsmelónu og rauð epli í bragðinu. Þau geta jafnframt endurspeglað bragðeinkenni jarðvegarins sem þrúgurnar eru ræktaðar í og má þá finna steinefnatóna. Kælt vínið myndi henta til dæmis með fersku geitaosta salati.

Tempranillo er algeng þrúga á Spáni. Rósavín gerð úr þessari þrúgu eru bragðmikil og bera jafnan einkenni vatnsmelónu og jarðaberja ásamt safaríkum kryddtónum. Í rósavínum frá Rioja er þrúgunum Graciano og Grenache blandað saman við til að fá aukinn blómlegan keim. Þessi rósavín geta gengið vel upp með taco veislu.

Provence er hérað í Suður-Frakklandi þar sem rósavínsframleiðsla er mikið stunduð og er vínið oftast gert úr blöndu af Grenache, Cinsault, Syrah og Mourvèdre. Vínið er jafnan följarðarberjarautt eða föllaxableikt og er ferskt og þurrt með fínlegum ávöxt. Jarðarber, vatnsmelónu og rósablöð má finna í bragðeinkennum. Það er gott bæði eitt og sér en einnig með ýmsum mat og gæti jafnvel gengið upp með ljúffengri humarpizzu með parmaskinku og klettasalati. 

Þetta er aðeins hluti af þeim þrúgum sem rósavín eru framleidd úr. Svo er bara um að gera að prófa sig áfram með sæt- og ferskleika, með mismunandi mat, nú eða bara eitt og sér.

Berglind Helgadóttir vínráðgjafi
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi