Það er einn af þessum sumardögum þegar sólin skín og fólk flykkist út á pall eða garð; einhverjir kveikja á grillinu, á meðan aðrir útbúa sér matarmikið salat. Með hlaðborð af kræsingum, hvað hentar þá betur en að hella kældu rósavíni í glas? Rósavín býr nefnilega yfir þeim eiginleikum að vera frísklegt, og henta þannig vel í sólinni, en einnig er það ágætis matarvín.
Léttir réttir skjóta vissulega fyrst upp kollinum, t.d. fiskur og bragð- og matarmikil salöt sem innihalda til dæmis klettasalat, rauðlauk og jafnvel rauðrófur. Rósavín hentar nefnilega einkar vel með ýmsu grænmeti og öðru sem getur verið erfitt viðureignar í pörun matar og víns. Bakkar fullir af skinku, bragðgóðum pylsum og ostum af ýmsum tegundum með alls kyns öðru gómsætu meðlæti henta vel með þurru og fersku rósavíni. Millisætt rósavínið gengur líka upp með sterkum mat, eins og tælenskum eða kínverskum sem og með sushi. Ýmis konar fiskur framreiddur með ýmsum hætti, sérstaklega grillaður lax, hentar afar vel með rósavíni. Rósavín með ferskri sýru gengur líka vel upp með ceviche, sem er hrár fiskur „eldaður“ upp úr sítrussafa.
En svo má líka alveg verða ævintýragjarn og prófa þurrt og ferskt rósavín með grillsneiðum úr lambi eða svíni. Ekki skemmir það heldur fyrir ef það er einhver freyðing í víninu. Svo má auðvitað ekki gleyma því að það er vel hægt að drekka rósavín eitt og sér.
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi