Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Tapas og vínin með

Með auknum ferðalögum okkar Íslendinga höfum við kynnst hinum dásamlegu spænsku smáréttum sem nefndir eru tapas. 

Saga tapas er aðeins á reiki en líklegasta skýringin er sú að þegar vín voru borin fram, gjarnan sætt sérrí, hafi brauð eða þunn kjötsneið verið lögð yfir glasið til að halda flugum frá. Þetta er ekki ósennilegt enda er orðið tapas dregið af sögninni tapar sem þýðir að loka (hylja)  á spænsku. 

Önnur vinsæl skýring er sú að þegar Alfons X var að jafna sig eftir veikindi hafi hann aðeins getað borðað og drukkið lítið í einu. Kóngi líkaði þetta svo vel að hann mæltist til að þegnar hans tækju upp þennan sið.

Að bjóða uppá tapasrétti með vínglasi er í öllu falli gamall siður sem rekja má langt aftur í aldir. Siður þessi hefur fest sig í sessi og nú er samkeppni mikil um að bjóða uppá sem bestu réttina. Tapasstaðir hafa sprottið upp eins og gorkúlur um heim allan við miklar vinsældir. Fjölbreytni í tapasréttunum er orðin mikil en þeir eru bornir fram heitir, kaldir, steiktir, soðnir eða einfaldlega ferskir. 

Hvernig vín á að bjóða uppá með tapas ? Það sem passar best með er eðli málsins samkvæmt spænsk vín og kemur þar margt til greina. Einna algengast er að bera fram þurrt, kælt sérrí. Einnig henta lėtt og ávaxtarík rauðvín Crianza eða góð hvítvín með þéttum ávexti og smá kryddtónum, eins og til dæmis úr Albarinio þrúgunni, vel með mörgum tapas réttum. Kælt rósavín er einnig góður kostur.

Við Íslendingar erum óvön þurru kældu sérríi, en reynið það gjarnan með ólífum og  þurrkuðum pylsum, það kemur skemmtilega á óvart!

Júlíus Steinarsson vínráðgjafi

Júlíus Steinarsson
vínráðgjafi