Fiskur og rauðvín hefur sjaldan þótt fara vel saman, allavega ekki hér á landi. Frændur vorir Norðmenn eru þó með það á hreinu að rauðvín með soðnum þorski sé algjör veislumatur og haldið ykkur nú fast; rauðvín með soðnum þorski, hrognum og lifur, þá er sko hátíð!
Ástæðan fyrir þessum sið er ekki endilega sú að þetta fari vel saman. Trúlega má rekja þetta til fyrri tíma þegar fólk hafði ekki mikið á milli handanna og matur var af skornum skammti. Hafragrautur, síld og kartöflur einna helst á borðum. Þá sjaldan sem hægt var að gæða sér á hrognum og lifur var ástæða til að drekka það flottasta og besta sem hægt var að fá og gjarnan var það rautt Bordeaux.
Þessi norski siður er svo ástæðan fyrir þessu spjalli mínu. Ég hef nokkru sinnum haft rauðvín með fiskréttum og ekki enn orðið fyrir vonbrigðum, viðurkennast skal þó að þorsklifur og rauðvín er ekki á óskalistanum. Fyrir þá hugrökku læt ég fylgja uppskrift af einföldum rétti. Ég notaði smálúðu, það má einnig nota þorskhnakka. Þar sem við erum bara tvö í heimili, þá er uppskriftin miðuð við það, ég hef alltaf átt í erfiðleikum með margföldunartöfluna svo ég læt ykkur eftir að lagfæra magnið eftir þörfum.
Smálúða með rauðvínssósu
Innihald:
400 g smálúðuflök með roði
100 g skallotlaukur
150 g sveppir
150 g beikon
375 ml rauðvín
1,5 dl kjúklingasoð
olía og smjör til steikingar
Salt og pipar
2 smjörklípur
Aðferð:
Hreinsið roðið með því að skafa það með hníf, þerrið því næst fiskinn. Fínsaxið skallot laukinn og léttsteikið hann í potti, bætið svo rauðvíninu út í og sjóðið niður um 2/3. Skerið sveppina gróflega niður og beikonið í bita. Brúnið sveppina í olíu og smá smjöri á pönnu og látið þá síðan á disk, stökksteikið svo beikonið á pönnunni og setjið á disk með sveppunum., Sigtið laukinn frá þegar rauðvínið hefur soðið niður, setjið rauðvínið aftur í pottinn og bætið kjúklingasoðinu út í ásamt sveppum og beikoni og látið suðuna koma upp. Þykkið sósuna eftir þörfum, smakkið til og haldið heitri á meðan lúðan er steikt.
Saltið og piprið flökin og steikið í olíu og smjöri á pönnu, með roðhliðina niður. Látið fiskinn steikjast vel á þessari hlið eða þar til að þið sjáið fiskinn hvítna langleiðina upp, snúið honum þá við og steikið smástund í viðbót.
Takið sósuna af hitanum, hrærið tveim smjörklípum í sósuna saman við hana og þá er hún klár. Sósan má ekki sjóða eftir að smjörið er komið í. Setjið sósuna á miðjan disk og fiskinn þar ofan á með roðhliðina upp, berið t.d. fram soðnar kartöflur og steiktar sykurbaunir sem meðlæti.
Með þessu hafði ég sama rauðvín og ég notaði í sósuna. Vínið var létt með milda sýru og lítil tannín. Það sem þarf að hafa í huga þegar velja á rauðvín með fiski er að vínið hafi lítil eða mild tannín, því það eru tannínin sem eru helsti óvinurinn. Með því að hafa beikon og sveppi í réttinum geri ég hann rauðvínsvænni.
Konan mín gaf þessum rétti tíu, en það er kannski bara af því að hún þekkir kokkinn :)
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi