Viðskiptavinir biðja mig stundum góðlátlega að „bulla“ við sig um vínið. Þá eiga þeir við að ég lýsi víninu. Segi frá kostum og göllum þess, hvernig það bragðast, hvernig það ilmar, með hverju það gengur matarlega, hvort það sé kröftugt eða létt, sætt eða súrt, ungt eða þroskað. En allar þessar upplýsingar má í raun nálgast á hillumiðanum.
Þó að hillumiðinn sé ekki stór er þar fullt af upplýsingum að finna sem gefa í skyn hvernig vínið er og hvort það henti viðkomandi.
Fyrst er að sjá nafn og framleiðenda, framleiðsluland og verð vínsins.
Þá tekur við strúktúr lýsing sem segir til um hvernig bygging vínsins er. Við lýsum lit, fyllingu, sætu, sýru og tanninum. Sú lýsing segir okkur hvernig vínið er í munni og ásjónar.
LITUR
Fyrir rauðvín notum við liti eins og fjólurautt, rúbínrautt, kirsuberjarautt, múrsteinsrautt og ryðrautt. Límónugrænt, sítrónugult, strágult, gull, raf og brúnt hvað hvítvín varðar. Einnig notum við orð eins og föl, ljós, dökkt og dimmt á undan. Rauðvín getur því verið ljós rúbínrauð eða dökk kirsuberjarauð. Þessi litir gefa til kynna aldur og þroska vínsins. Ung eru þau fjólu- og rúbínrauð og verða múrsteins- og ryðrauð þegar þau eru orðin þroskuð og gömul. Á þessu eru þó undantekningar sem tengjast þrúgutegundinni, en það er efni í annan pistill.
FYLLING
Létt, létt meðal, meðal, þétt meðal, mjúk meðal, þétt, mjúk og þung. Allt eru þetta lýsingarorð sem eiga við munnholstilfinninguna sem vínið gefur. Létt er eins og undanrenna, meðal eins og mjólk og þung eins og rjómi. Oft er ákveðin fylgni við alkóholprósentu og fyllingu. Því minni alkóhol því minni fylling og öfugt.
SÆTA
Þegar sætu í víni er lýst eru notuð orð eins og ósætt, sætuvottur, smásætt, hálfsætt, sætt, mjög sætt og dísætt. Á eldri hillumiðum má kannski finna orð eins og „þurrt“ sem er í raun það sama og ósætt. Eftir því sem miðar endurnýjast mun orðið „þurrt“ hverfa.
SÝRA
Sýra getur ýmist verið lítil, miðlungs, mikil eða mjög mikil og notum við orðin flatt, mild sýra, fersk sýra, sýruríkt og súrt til að lýsa henni. Mikilvægt er að átta sig á því að vilji maður ekki „súrt“ vín þá er best að leita að víni með mildri sýru, en ekki nauðsynlega að víni með sætu.
TANNIN
Tannin eru efnasambönd sem eru í hýði þrúgunnar, stilknum og steinunum. Þau leysast úr læðingi þegar hýðið velkist með víninu til að draga út rauða litinn í hýðinu. Þau eru nokkuð beisk og geta verið erfið. Sérstaklega ef þau eru óþroskuð. Ef þið hafið japlað á vínberjahýði og kannski brutt vínberjastein þá þekkið þið þessa beiskju sem virkar eins og varirnar límist við tennurnar.
Nokkuð snúið er að lýsa taninum í víni, en við notum lýsingarorð eins og engin/hverfandi, lítil, miðlungs og mikil - og svo geta þau verið mild, þétt eða þurkkandi, eða kannski „grípandi“.
ILMUR OG BRAGÐ
Við notum aragrúa af lýsingarorðum til að lýsa þessum einkennum, en mikilvægt er að átta sig á að við nefnum fyrst þau einkenni sem eru ríkust. Ef hvítvíni er lýst svona: „Eik, suðrænn ávöxtur, epli“ þá er eikartakturinn nokkuð afgerandi. Við höfum ekki úr miklu plássi að vinna þannig að ef lýsingin er flókin þá endar hún á „margslungið“.
Neðst á miðanum eru einnig matartákn sem gefa í ráðleggja um með hvaða matartegund vínið hentar best. Það er hægt að kynna sér þau hér.
FLÖSKUTÁKNIÐ
Flaskan er annaðhvort upprétt, hallandi eða liggjandi. Sé hún upprétt er vínið tilbúið til neyslu og mun ekki batna við frekari geymslu. Sé hún hallandi mun hún verða betri með aukinni geymslu, en er alveg drykkjarhæf þó það sé ekki gert. Ef flaskan er liggjandi er mælt með að geyma hana lengur áður en hennar er neytt.
AÐRAR MERKINGAR
(Lítraverð, kjarnavara/reynsluvara, létt- miðlungs- kröftugt / sæta)
Ef meira pláss væri á miðanum þá mundi lýsing á víni sem á miðanum hljómar svona:
„Dökk kirsuberjarautt. Ósætt, þung fylling, fersk sýra, þétt tannin. Dökk ber, sólber, dökkt súkkulaði, kaffi.“
..vera einhvern veginn svona:
„Vínið er dökkt, nánast dimmt á lit. Dökkir kirsuberjatónar í kjarna og lítill kantur í barmi. Í nefi er það sneisafullt af sólberi, en einnig er að finna plómu og kirsuber. Vottur af vanillu svífur yfir. Í munni brjótast fram tónar af kaffi og súkkulaði. Mokka kemur upp í huga manns. Sýran er fersk og ber uppi vínið eins og strengur. Tanninin eru þétt og verður vínið þungt, nánast massíft fyrir vikið. Sannkallað nauta- og villibráðavín. Margslungið eftirbragð hangir lengi í munni og umvefur tunguna ljúffengum unaði. Njótið vel.“
Sigmar Reynisson
vínráðgjafi