Notalegheitamatur er kannski ekki þjálasta orðið yfir comfort food en skilst þó ágætlega að mínu mati. Þegar skammdegið færist yfir sækjum við í annarskonar mat, líkt og matarmiklar súpur eða pottrétti. Ímyndið ykkur að vindurinn gnauði úti, við séum búin að kveikja á kertum og bíðum eftir að maturinn verði klár. Það er fátt notalegra en að hægelda góðan pottrétt úr nauti eða lambi og þá þarf ekki endilega að nota fínustu bitana því með hægeldun verður allt svo mjúkt og meyrt. Annað sem bætir flesta rétti er að nota bragðmikinn bjór eða vín í réttinn, það gerir kjötið meyrara og gefur gott grunnbragð. Réttir sem þessir eru upplagðir til að taka til í grænmetisskúffunni og grynnka á í frystinum.
Hvaða vín eða bjóra notum við með þessum hægelduðu réttum? Þó það sé ekkert endilega nauðsynlegt að vera með slíkt þá er til hátíðabrigða gaman að para saman notalegheitamat með bjór eða víni.
Ef við skoðum möguleikana sem eru fyrir hendi þá getum við flokkað þá í þrjá flokka:
Með léttari súpum eins og grænmetis- og fiskisúpum er upplagt að velja hvítvín úr t.d. Sauvignon Blanc, þéttan Pinot Gris, Gewurstraminer eða létt Pinot Noir ef við viljum velja rauðvín. Bjór gengi auðvitað vel, en þá ljósari bjórar eins og pale ale og hveitibjórar með sítrustónum í lýsingu.
Með kjötsúpum er hægt að velja léttari vín eins og Pinot Noir, létt ítölsk eins og Chianti eða spænsk Rioja, gjarnan Crianza. Ef farið er í bjór þá eru millidökkar classic týpur fínir eða belgískt öl í milliflokki.
Þriðji flokkurinn er bragðmeiri pottréttir og þar koma mörg vín til greina. Vínin þurfa að hafa ákveðinn þéttleika sem gjarnan finnst í vínum frá Nýja heiminum úr Cabernet Sauvignon eða Shiraz þrúgunum. Frá Gamla heiminum er hægt að velja kröftug vín frá Bordaux, Ripasso frá Ítalíu eða spænsk Ribera del Duero vín. Annar valkostur er kröftugur bjór, gjarnan millidökkt til dökkt öl með þétta fyllingu, eins og til dæmis margt belgískt öl. Fyrir pottréttina er einnig hægt að leita eftir vínum með pottréttartákninu á hillumiða Vínbúðanna eða á vinbudin.is
Lambaskankauppskrift
4 lambaskankar (einnig hægt að nota súpukjöt)
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
1 teskeið kóríanderfræ
1 lítið þurrkað rautt chili eða 2 tsk. af söxuðu fersku chili
1 msk. ferskt rósmarín
1 tsk. þurrkað marjoram eða oreganó
1 msk. hveiti
1 msk. ólífuolía
1 hvítlauksrif
1 stór gulrót skorin í netta bita
4 sellerístönglar skornir í sneiðar
2 meðalstórir laukar, saxaðir
2 msk. balsamikedik
170 ml þurrt hvítvín
6 ansjósuflök
2 dósir af plómutómötum
1 lúka af grófsaxaðri basiliku, marjoram eða steinselju
Lambið kryddað með salti og pipar. Annað krydd er mulið saman og dreift yfir kjötið (ég læt nú standa í smá stund). Hveiti stráð yfir og bitarnir steiktir í olíu á pönnu. Kjötið tekið af pönnunni og grænmetið mýkt á pönnunni. Balsamikediki bætt þar í og látið sjóða þar til verður að sírópi. Hvítvíni hellt í og látið sjóða í 2 mínútur. Ansjósum bætt í og svo tómötum. Lambinu bætt aftur í. Soðið rólega í 180°C í 1,5 klst., lokið svo fjarlægt og soðið í ½ klst. til viðbótar. Einnig má hita í ofni á 150°C í lokuðum ofnpotti. Fitunni fleytt af, kryddað eftir smekk og basiliku (eða marjoram eða steinselju) bætt í. Borið fram með kartöflumús, polenta, kúskús eða hrísgrjónum.
Bjóreldað naut
1,25 kg af beinlausu nauti skorið í stóra bita
1 bolli (250 ml) af góðum kjúklingakrafti
60 ml (4 matskeiðar) ólífuolía
Salt og svartur pipar
3 stórar gulrætur, gróft sneiddar
3-4 laukar, gróft sneiddir
4 hvítlauksrif (létt marin)
1/4 bolli (60 ml) sterkur espresso
30 g dökkt súkkulaði
660 ml dökkt og bragðmikið öl
Kryddvöndur; 4 greinar timian, 3 greinar steinselja og 1 lárviðarlauf bundið saman (má nota þurrkað krydd)
1 tsk. asísk fiskisósa
1 tsk. soya sósa
1 tsk. Worcestershire sósa
2 msk. hveiti
Ríflega 200 g litlar kartöflur
Söxuð steinselja til skreytinga
Hitið ofninn í 160°C. Setjið um helming af olíunni í ofnpott og brúnið á heitri hellu í u.þ.b. 10 mín. Saltið og piprið. Setjið kjötið til hliðar. Því næst er grænmetið steikt í ofnpottinum á lækkuðum hita. Bætið í krafti, kaffi, súkkulaði, bjór, kryddvendinum, fiski-, soya- og Worcestershire sósu og hitið saman. Veltið kjötinu upp úr hveitinu og bætið í pottinn. Hafið ofnpottinn örlítið opinn og setjið í ofninn. Látið malla í klukkustund en hrærið í á 15 mínúnta fresti.
Bætið í kartöflunum og sjóðið áfram 30 mínútur, eða þar til kartöflurnar eru soðnar. Gott er að taka lokið af í restina og þykkja ef þarf. Stráið söxuðu steinseljunni yfir og berið fram með kartöflumús.
Júlíus Steinarsson
vínráðgjafi