Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Amerískt viskí

Amerískt viskí

Hér á Íslandi er ekki svo langt síðan að viskí frá Bandaríkjunum, þ.e. Bourbon og skyldir spírar, höfðu fremur slæmt orðspor.  Þetta voru hráir, einfaldir drykkir sem voru nánast ekki þess virði að kaupa. Tímarnir eru sem betur fer að breytast.
Ef ekki væri fyrir bannárin frá 1920-1933 væri bandarískt viskí hugsanlega á þeim stað sem skosku viskíin eru nú. Við skulum kíkja örstutt á þrjár helstu viskítýpurnar sem framleiddar eru í Bandaríkjunum.

Bourbon
Þekktasta viskí Bandaríkjanna. Bourbon má framleiða hvar sem er í Bandaríkjunum en þó er eitt fylki sem ríkir á toppnum, Kentucky.  Bourbon þarf að innihalda að minnsta kosti 51% maís og restin úr öðru korni t.d. rúgi eða hveiti. Það þarf ekki að uppfylla neinn tiltekinn árafjölda í þroskun á eikartunnum og til eru dæmi um Bourbon sem hafa einungis verið þroskuð í örfáa mánuði. Hins vegar til þess að mega kallast Straight Bourbon þarf það að vera tunnuþroskað á nýrri sviðinni amerískri eik í tvö ár.  Ef enginn aldur er gefinn upp á flöskumiðanum verður  yngsta viskíið í blöndunni að vera að minnsta kosti fjögurra ára gamalt.  Flest Bourbon er í kringum 4-6 ára gamalt, þó fjölmörg dæmi séu auðvitað um mun eldri týpur. Það sem maður verður þó að hafa í huga er að loftslagið í Kentucky, sem og tunnurnar sem spírinn er þroskaður í, hafa allt önnur áhrif en það sem gengur og gerist t.d. í Skotlandi, þar sem mjög algengt er að aldur viskís sé á bilinu 12-18 ára . Mikill munur á hitastigi dags og nætur gerir það að verkum að þroskunarferlið er mun hraðara. Einnig þarf að huga að því að tunnurnar sem notaðar eru við gerð Bourbons þurfa að vera nýjar og ef spírinn væri látinn liggja of lengi í tunnunum, væri hætta á því að viskíið sem kæmi úr þeim væri gríðarlega tannískt og yfireikað.

Tennessee whiskey
Nágrannarnir fylgja sömu reglum og Kentucky Straight Bourbon, nema þeir bæta við aukaskrefi sem kallast The Lincoln County Process.  Um leið og spírinn er klár til eikarþroskunar er hann látinn síast í gegnum hlynviðarkol. Þetta ferli á að mýkja spírann og það má með sanni segja að ferlið geri það.

Rye whiskey
Nokkur aukning hefur orðið á bæði framleiðslu og sölu á rúgviskí. Þessi viskí þurfa að innihalda að minnsta kosti 51% rúg í blöndunni til að mega kallast Rye, og ef þau eru látin þroskast í meira en tvö ár á nýrri sviðinni eik, mega þau kallast Straight Rye.
Það sem einkennir rúgviskí er að þau eru krydduð, kröftug og hafa þurrari og beiskari endingu en gengur og gerist í Bourbon.  Rúgviskí eru frábær ein og sér en eru einnig æðisleg í kokteila, þar sem kryddið og krafturinn sker sig í gegnum drykkinn og lyftir honum upp.

Gísli Guðmundsson vínráðgjafi

Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi